Það liðu fjögur ár frá því framkvæmdir hófust árið 2003 og þar til aflstöðin var komin í fullan rekstur árið 2007. Samfara byggingu stöðvarinnar var byggð álverksmiðja á Reyðarfirði og er orkan úr stöðinni seld þangað að stærstum hluta.
Fallhæð vatnsins á hinni löngu leið frá lónunum á hálendinu að inntaki stöðvarinnar er um 200 m. Tveir þriðju hlutar heildarfallhæðarinnar eru í um 400 m háum nánast lóðréttum fallgöngum við Fljótsdalsstöð. Samanlögð fallhæð vatnsins er því yfir 600 m. Í stöðvarhúsinu knýr vatnið sex öfluga hverfla og rennur svo um frárennslisgöng og skurð út í Jökulsá í Fljótsdal austur undan Valþjófsstað í 26 m hæð yfir sjávarmáli. Stöðvarhúsið er staðsett neðanjarðar, inni í Valþjófsstaðafjalli og er aðkoma að því um sérstök 800 m löng aðkomugöng.
Rekstur Fljótsdalsstöðvar hófst árið 2007. Vatnasvið hennar er afar víðfeðmt, eða um 2.236 km2 og lón stöðvarinnar eru mynduð með fimm stíflugörðum sem eru yfir fimm kílómetrar að lengd. Vatnið er leitt að hverflum Fljótsdalsstöðvar frá lónum á hálendinu norðan Vatnajökuls um jarðgöng sem eru samanlagt rúmlega 72 km eða sem svarar til tæplega 12 Hvalfjarðarganga.
Kárahnjúkastífla, efst í Hafrahvammagljúfrum (Dimmugljúfrum), er hæsta grjótstífla í Evrópu með steyptri þéttikápu og meðal þeirra stærstu í heiminum af þessari gerð. Hún stíflar Jökulsá á Dal við Fremri Kárahnjúk og er langstærsta stíflan á svæðinu. Grjótið í stífluna var að mestu tekið úr námum innan lónsins skammt ofan við stífluna og lagt út í þjöppuðum lögum. Á byggingartíma var ánni veitt um hjáveitugöng undir stífluna á vesturbakkanum.
Austan við Kárahnjúkastíflu er minni stífla, Desjarárstífla, í drögum undir Fremri Kárahnjúki og í dalverpi að vestanverðu er Sauðárdalsstífla. Saman mynda þessar stíflur Hálslón sem er um 63 km2 að stærð og nær inn að Brúarjökli. Hálslón stækkaði frá 57 km2 við upphaf framkvæmda sem skýrist að mestu af hopun Brúarjökuls um 4,5 km frá árinu 2000. En mælingin er gerð við 80 cm yfirfall.
Hálslón fyllist síðsumars flest ár. Þá er vatni veitt um yfirfall við vestari enda Kárahnjúkastíflu niður að gljúfurbarminum og þaðan steypist það í 90–100 m háum fossi, Hverfanda, niður í Hafrahvammagljúfur. Það er til marks um gríðarlegt afl fossins að hann getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss.
Tvö minni lón nýta vatn úr Jökulsá í Fljótsdal, Ufsarlón og Kelduárlón. Vatnið úr Hálslóni er leitt um jarðgöng austur um Fljótsdalsheiði þar sem það mætir vatni í öðrum jarðgöngum frá Ufsarlóni. Þaðan rennur vatnið í einum göngum norðaustur að inntaki efst í Valþjófsstaðafjalli. Aðrennslisgöngin liggja á um 100-200 m dýpi undir heiðinni. Frá inntakinu liggja tvenn fallgöng að stöðvarhúsi Fljótsdalsstöðvar sem er neðanjarðar um einn kílómetra inni í fjallinu.
Fljótsdalsstöð | |
---|---|
Uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar: | 690 megavött |
Tryggð orkuvinnslugeta: | 4.600 gígavattsstundir á ári |
Hverflar: | Francis, lóðréttur ás |
Fjöldi: | 6 |
Hönnunarrennsli: | 24 rúmmetrar á sekúndu hver |
Stærð: | 115 megavött hver |
Hálslón | |
Flatarmál lóns þegar það er fullt: | 63 ferkílómetrar |
Lengd lóns þegar það er fullt: | 25 kílómetrar |
Miðlunarrými: | 2.210 gígalítrar |
Vatnsborðshæð þegar lón er fullt: | 625 metrar yfir sjávarmáli |
Lágmarkshæð vatnsborðs og við tekur varaforði: | 560 metrar yfir sjávarmáli |
Vatnasvið: | 1.806 ferkílómetrar |
Áætlað meðalrennsli í Hálslón: | 107 rúmmetrar á sekúndu |
Kárahnjúkastífla | |
Mesta hæð stíflu: | 198 metrar |
Lengd stíflu: | 700 metrar |
Fyllingarefni í stíflu: | 8,4 milljón rúmmetrar |
Desjarárstífla | |
Mesta stífluhæð: | 68 metrar |
Lengd stíflu: | 1.100 metrar |
Fyllingarefni í stíflu: | 2,9 milljón rúmmetrar |
Sauðárdalsstífla | |
Mesta stífluhæð: | 29 metrar |
Lengd stíflu: | 1.100 metrar |
Fyllingarefni í stíflu: | 1,6 milljón rúmmetrar |
Ufsarlón | |
Flatarmál lóns þegar það er fullt: | 1 ferkílómetri |
Vatnsborðshæð þegar lónið er fullt: | 625 metrar yfir sjávarmáli |
Vatnasvið: | 430 ferkílómetrar |
Áætlað meðalrennsli í Ufsarlón: | 31 rúmmetri á sekúndu |
Ufsarstífla | |
Mesta stífluhæð: | 37 metrar |
Lengd stíflu: | 600 metrar |
Fyllingarefni í stíflu: | 0,5 milljón rúmmetrar |
Kelduárlón | |
Flatarmál lóns þegar það er fullt: | 7,5 ferkílómetrar |
Vatnsborðshæð þegar lónið er fullt: | 669 metrar yfir sjávarmáli |
Miðlunarrými: | 60 gígalítrar |
Kelduárstífla | |
Mesta stífluhæð: | 26 metrar |
Lengd stíflu: | 1.700 metrar |
Fyllingarefni í stíflu: | 0,7 milljón rúmmetrar |
Jarðgöng: | Alls um 72 kílómetrar |
Aðrennslisgöng frá Hálslóni (þvermál: 7,2-7,6 metrar): | 39,7 kílómetrar |
Aðrennslisgöng frá Ufsarlóni (þvermál:6,5 metrar): | 13,3 kílómetrar |
Þrenn aðgöng vegna aðrennslisganga (þvermál: 7,2-7,6 m): | 6,9 kílómetrar |
Tvenn hjáveitugöng og aðkoma við Kárahnjúkastíflu: | 2,4 kílómetrar |
Bergþéttingargöng undir Kárahnjúkastíflu: | 500 metrar |
Sveiflugöng (þvermál: 4,5 metrar): | 1,7 kílómetrar |
Tvenn göng í Hraunaveitu (þvermál: 4,5 metrar): | 3,7 kílómetrar |
Tvenn fallgöng að stöðvarhúsi (þvermál: 4,0 metrar): | 800 metrar |
Aðkomugöng að stöðvarhúsi (þvermál: 7,5 metrar): | 1,0 kílómetri |
Frárennslisgöng (þvermál 9,0 metrar): | 1,3 kílómetrar |
Strengjagöng (þvermál 4,0 metrar): | 1,0 kílómetri |
Frárennslisskurður í Fljótsdal | |
Lengd: | 2,1 km |
Grafið rúmmál: | 700.000 rúmmetrar |
Heildarfallhæð frá Hálslóni í stöðvarhús í Fljótsdal: | 599 metrar |
Hönnunarrennsli (mesta mögulega rennsli): | 144 rúmmetrar á sekúndu |
Meðalrennsli: | 110 rúmmetrar á sekúndu |
Línuritið sýnir sumarrennsli Jökulsár í Fljótsdal á tveimur stöðum. Einnig sýnir það áætlað meðalrennsli ásamt hámarks- og lágmarksrennsli frá 1950 til 2004.