Við gangsetningu Ljósafossstöðvar árið 1937 var framboð rafmagns á höfuðborgarsvæðinu fjórfaldað. Möguleiki skapaðist á að nota rafmagnseldavélar í stað kolavéla en rafmagnið í Reykjavík frá Elliðaánum og fyrir tíma Ljósafossstöðvar var einkum notað til lýsingar. Til þess að auka nýtingu á raforku frá Ljósafossstöð gátu heimilin fengið eldavél frá Rafha í áskrift með rafmagninu.
Elsta aflstöðin í Soginu stendur við Ljósafoss, útfall Úlfljótsvatns. Stöðin stendur á árbakkanum austan við fossinn, vatnið er leitt um pípur að hverflum stöðvarinnar og þaðan út í ána neðan við fossinn.
Rekstur stöðvarinnar við Ljósafoss hófst árið 1937. Þá voru settar upp tvær vélasamstæður, samtals með 8,8 MW afli. Þriðja vélin bættist við árið 1944 og er hún 6,5 MW.
Sogið fellur úr Þingvallavatni, stærsta stöðuvatni Íslands, 83 km2. Afrennsli vatnsins er til suðurs um Efra-Sog í Úlfljótsvatn sem liggur 21 m lægra en Þingvallavatn og er 2,8 km2. Neðan Úlfljótsvatns eru þrír fossar, Ljósifoss, Írafoss og Kistufoss og er samanlögð fallhæð þeirra 55 m. Meðalrennsli Sogsins er um 110 m2 á sekúndu.
Sogið er vatnsmesta lindá landsins og kemur vatnið aðallega úr uppsprettum á botni Þingvallavatns.
Ljósafossstöð | |
---|---|
Fallhæð: | 17 m |
Afl: | 15 MW |
Hönnun: | A.B.Berdal og J.P. Nissen |
Halgrim Thoresen | |
Sigurður Guðmundsson | |
Helstu verktakar | |
Fyrri hluti: | Höjgaard & Schultz, Danmörku |
Seinni hluti: | Almenna byggingafélagið |
Framleiðendur hverfla og rafala (fyrri hluti) | |
Hverflar: | Karlstads Mekaniska Werkstad, Svíþjóð |
Rafalar: | ASEA, Svíþjóð |
Framleiðendur hverfla og rafala (Seinni hluti) | |
Hverflar: | S. Morgan Smith Co, Bandaríkjunum |
Rafalar: | General Electric Int. Co, Bandaríkjunum |