Ársfundur 2011
No Item Found

Ísland árið 2025: Fjölbreyttur iðnaður, sæstrengur og grænar tekjur.

Um 360 manns sátu ársfund Landsvirkjunar sem fór fram í dag. Á fundinum var meðal annars sagt frá þeim tækifærum sem fyrirtækið stendur frammi fyrir og árangur ársins 2010 kynntur.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, opnaði fundinn. Hún sagði meðal annars að setja yrði skynsamlega nýtingarstefnu í orkumálum sem öll þjóðin gæti fallist á. Endurskoða þurfi vinnubrögð og marka skýra stefnu sem öllum er ljós. Fyrir liggi drög að orkustefnu Íslands þar sem lagt er til grundvallar að nýting orkunnar sé öllum til hagsbóta. Unnið væri að frekari stefnumótun í orkumálum og tillaga nefndar um rammaáætlun um virkjun vatnsfalla muni liggja fyrir í byrjun sumars.

Iðnaðarráðherra sagði að fullt traust yrði að ríkja til Landsvirkjunar og að þjóðin þyrfti aldrei að efast um að fyrirtækið væri að vinna í hennar þágu. Hún sagði að Landsvirkjun nyti trausts í samélaginu og að áherslur hennar á markaðshugsun væru trúverðugar. Nauðsynlegt væri að skapa fyrirtækinu hagstæðar aðstæður til að vaxa og dafna. Að lokum sagði Katrín að mikilvægt væri að setja Landsvirkjun skýra eigendastefnu en það verði gert á næstunni. Í stefnunni verði skilgreint við hvaða ramma fyrirtækið starfar.

Hófleg nýting auðlinda framundan

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði að Landsvirkjun stæði frammi fyrir mörgum tækifærum og væru þau skynsamlega nýtt gæti Landsvirkjun skapað umtalsverðan arð í framtíðinni. Sýn Landsvirkjunar á Ísland árið 2025 byggir á hóflegri nýtingu auðlinda, öflugri uppbyggingu orkumannvirkja og iðnaði því tengdum auk möguleika á sölu á grænum þætti raforkunnar og tengingu við Evrópu með sæstreng.

Hörður fór yfir þær breytingar sem átt hafa sér stað á alþjóðamörkuðum og hafa áhrif á tækifæri fyrirtækisins. Eftirspurn sé drifin áfram af Kína og Indlandi, kínverskur iðnaður sé í útrás og markmið Evrópusambandsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda hafi áhrif á eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku. Greiningaraðilar væru samstíga í spám sem benda til frekari verðhækkana á raforku í Evrópu.

Hörður sagði Landsvirkjun standa frammi fyrir spennandi viðskiptatækifærum. Spurn eftir auknu orkuframboði muni hækka meðalraforkuverð Landsvirkjunar og samningsstaða Landsvirkjunar gagnvart núverandi viðskiptavinum sé stöðugt að styrkjast. Ýmislegt bendi til að lagning sæstrengs til Evrópu sé orðin fjárhagslega arðbær kostur og stjórnvöld vinni að aðild Íslands að evrópskum markaði með græn vottorð.

Hörður sagði að Landsvirkjun stæði frammi fyrir fjölbreyttum og ódýrum grænum orkuöflunarmöguleikum og næstu fimmtán ár gæti Landsvirkjun aukið raforkuvinnslu í viðráðanlegum og smáum skrefum. Bygging nýrra orkumannvirkja kallaði á mikla fjárfestingu og fyrstu athuganir bendi til að arðsöm uppbygging hefði fjölbreytt efnahagsleg áhrif á Íslandi.

Mikilvægt að Landsvirkjun starfi á viðskiptalegum forsendum

Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar, sagði í ávarpi sínu að Landsvirkjun legði mikla áherslu á gott samstarf og gott upplýsingaflæði um stefnu fyrirtækisins til fjármálaráðherra sem fer með eigendavaldið – og eftir atvikum annarra ráðherra sem koma að þeim málefnasviðum sem fyrirtækið starfar á.

Hér á landi hefur á síðustu mánuðum borið á vaxandi kröfu úr samfélaginu um að íslenska ríkið beiti eigendavaldi sínu gagnvart Landsvirkjun, í því skyni að koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný. Þá hefur vaxandi áhersla verið lögð á það innan Landsvirkjunar að fyrirtækið opni starfsemi sína einnig fyrir almenningi, með því að birta upplýsingar og standa fyrir umræðu um starfsemi þess. Landsvirkjun hefur þannig getað starfað óhindrað og eftir viðskiptalegum forsendum að því að sinna hlutverki sínu, sem væri að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.

Bryndís sagði að kröfur hafi verið settar fram um það, meðal annars á Alþingi og hjá aðilum vinnumarkaðarins, að stjórnvöld gangi til samninga við tiltekin fyrirtæki í þessu skyni, sem myndi setja Landsvirkjun í slæma samningsstöðu ef til slíkra samninga kæmi. Bryndís sagði að sem betur fer hefðu stjórnvöld ekki tekið undir slíkar kröfur. Forsenda þess að fyrirtækið geti byggt sig upp væri að það fengi að starfa eftir lögmálum eðlilegra stjórnarhátta og á viðskiptalegum forsendum.

Sterk lausafjárstaða

Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar, sagði að fjárhagsleg niðurstaða ársins 2010 væri ein sú besta í sögu fyrirtækisins. Landsvirkjun stæði á traustum grunni og sjóðstreymi og lausafjárstaða væru með sterkasta móti. Á síðastliðnu ári hafi vaxtaberandi skuldir lækkað en fyrirtækið væri enn skuldsett.

Á árinu 2010 námu rekstrartekjur um 378 milljónum Bandaríkjadala (43 milljörðum króna). Rafnar benti á að þetta væri um 10% aukning á milli ára. Á síðastliðnu ári hafi nokkrir raforkusölusamningar verið endurskoðaðir. Við það tækifæri hafi tenging við álverð í orkuverðinu verið afnumin. Að lokinni þessari endurskoðun hefði hlutfall raforkusölu tengt álverði lækkað úr 76% í 50%.

Rafnar sagði að lausafjárstaða Landsvirkjunar væri sú besta frá upphafi þrátt fyrir erfiðleika á mörkuðum. Landsvirkjun hefði í lok árs aðgang að 573 milljónum Bandaríkjadala eða rétt um 66 milljörðum króna. Óádregin veltilán í árslok 2010 hafi annars vegar verið að fjárhæð 282 milljónir USD erlent sambankalán og hins vegar 3 milljarða kr. lán hjá Íslandsbanka.

Niðurstaða ársins sýnir að eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar hækkar í 34% sem er hæsta hlutfall síðan árið 1997. Stór hluti núverandi skulda félagsins kemur vegna framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. Sjóðstreymið er jákvætt og verður það notað til niðurgreiðslu skulda.

Horfurnar eru þær að:

  • Þróun álverðs, gjaldmiðla og vaxta verða áfram áhættuþættir
  • Landsvirkjun mun leggja áherslu á lausafé og niðurgreiðslu skulda
  • Áframhaldandi ábyrg fjármálastýring
  • Leggja grunn að framtíðinni

 

Glærur

Bryndís Hlöðversdóttir

Hörður Arnarson

Rafnar Lárusson