Búrfellslundur

Um virkjunarkostinn

Óflokkað

Landsvirkjun hefur haft til athugunar undanfarin ár að reisa 200 MW vindlund, Búrfellslund á hraun- og sandsléttunni austan Þjórsár og á Hafinu, þar sem Landsvirkjun rekur nú þegar tvær vindmyllur í rannsóknarskyni. Reiknað er með að hámarkshæð þegar spaðar eru í efstu stöðu sé alltaf lægri en 150 m. Fjöldi vindmylla yrði um það bil 58 talsins fyrir vindmyllur með 3,5 MW aflgetu og 67 fyrir vindmyllur með 3,0 MW aflgetu.

Veðurfarslegar aðstæður eru afar hagstæðar til reksturs vindlundar á svæðinu og tekið var mið af því við staðarvalið. Á undanförnum tveimur áratugum hefur mikil þekking á veðurfari á svæðinu orðið til enda hafa vindmælingar verið gerðar þar allt frá árinu 1993.

Samkvæmt Svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015 er fyrirhugað framkvæmdasvæði skilgreint sem mannvirkjabelti, en svo eru þau svæði kölluð þar sem aðalfjallvegir hálendisins og mannvirki til raforkuvinnslu eru heimiluð. Rekstur virkjana á Þjórsár- Tungnaársvæðinu nær allt aftur til ársins 1969 og nú eru þar sex vatnsaflsstöðvar. Auk aflstöðvanna sjálfra eru á svæðinu fimm flutningslínur fyrir raforku. Fyrirhugaður Búrfellslundur er því innan eins stærsta orkuvinnslusvæðis landsins og telst því ekki vera á óröskuðu svæði. Sú staðreynd vó þungt við staðarval fyrir Búrfellslund, enda dregur það úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að ofangreindir innviðir séu til staðar.

Fyrirhugað framkvæmdasvæði er ekki skilgreint sem náttúrverndarsvæði og það er utan óbyggðra víðerna sem skilgreind eru sbr. 5.gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Það er nokkuð afmarkað af fjallgörðum í austur og vesturátt, sem dregur úr sjónrænum áhrifum vindlundarins til þeirra átta.

Sjónræn áhrif vindmylla eru bein, neikvæð en afturkræf þar sem unnt er að taka vindmyllur niður eftir að líftíma þeirra er lokið.

Uppbygging Búrfellslundar mun hafa í för með sér bein neikvæð áhrif á varpfugla innan svæðis og einnig á farleiðir fugla. Í ljósi niðurstaðna ítarlegra rannsókna er talið að umfang áhrifa á heildina litið sé óverulegt. Áhrif á fugla eru því metin óveruleg.

Mat á umhverfisáhrifum lauk í desember 2016 en sérstök kynningarsíða var gerð fyrir matið til að sem flestir gætu kynnt sér verkefnið á einfaldan og aðgengilegan máta. Rafræna matsskýrslan vann til tveggja verðlauna á Digital Communication Awards og má nálgast hana hér.  

Helstu kennistærðir

2,5-3,5
Afl hverrar vindmyllu (MW)
Allt að 67
Fjöldi (stk.)
Allt að 40
Stærð svæðis (km²)
Allt að 200
Afl (MW)
705
P50 orkugeta (GWst/ári)

Staða verkefnis

 • Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br. (sbr. 5.gr. og tl. 3.02 í 1. viðauka)

 • Mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar var unnið af Mannviti fyrir Landsvirkjun. Í matsskýrslu er fjallað um möguleg umhverfisáhrif allt að 200 MW vindlundar sem felur í sér uppbyggingu 58-67 vindmylla sem yrðu að hámarki 150 m háar. Fyrirhugað er að byggja vindlundinn upp í nokkrum áföngum, með því fæst reynsla af rekstri og mögulegum áhrifum vindmylla á svæðinu. Fjallað er um staðsetningu vindlundar og kosti þeirrar staðsetningar með tilliti til innviða og vindafars. Rætt er um tengsl framkvæmdanna við skipulag og vernd á svæðinu þ.m.t. Landsskipulag og aðal- og deiliskipulagsáætlanir.

 • Þeir umhverfisþættir sem voru til skoðunar voru: Ásýnd, landslag, hljóðvist, jarðmyndanir, gróður, fuglar, samfélag (sveitarfélög, nærsamfélag og ferðaþjónustu og ferðamenn) og fornleifar. Áhrif á hljóðvist, jarðmyndanir, gróður, fugla og fornleifar voru metin óveruleg. Áhrif á íbúa, ferðaþjónustu og ferðamenn voru metin nokkuð neikvæð en nokkuð jákvæð á sveitarfélög. Áhrif á landslag og ásýnd fengu einkunnina engin áhrif til verulega neikvæð áhrif. Áhrif vegna ásýndar eru mismunandi eftir fjarlægð, staðsetningar og legu í landslagi.

 • Tillögur að afmörkun Búrfellslundar mótuðust í gegnum matsferlið með það að markmiði að koma til móts við ábendingar og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Drög að vöktunaráætlun fyrir Búrfellslund er birt í skýrslunni og er þar gert ráð fyrir vöktun á nokkrum umhverfisþáttum bæði á framkvæmda- og rekstrartíma

 • Álit Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum Búrfellslundar má nálgast hér.

 • Unnin var sérstök rafræn matsskýrsla vegna Búrfellslundar og má nálgast hana hér. Rafræna matsskýrslan vann til tveggja verðlauna á Digital Communication Awards.

 • Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar afhenti umhverfis- og auðlindaráðherra þann 26. ágúst 2016 lokaskýrslu um verndar og orkunýtingaráætlun en Búrfellslundur var flokkaður í biðflokk.

  Helstu rök fyrir flokkun í biðflokk voru:

  • Lágar einkunnir faghóps 1 og háar einkunnir faghóps 2.

  • Mikil neikvæð áhrif á mörg ferðasvæði.

 • Landsvirkjun sendi inn umsögn þar sem meðal annars var tekið fyrir einkunn faghóps  sem metur auðlindanýtingu aðra en orkunýtingu. Umsögnina má nálgast hér.

Staðsetning

Kort af svæðinu

Skýrslur og rannsóknir