Nýtt fólk - ný orka
Við réðum 66 nýja starfsmenn á árinu. 46 með starfsstöð í Reykjavík og 20 á landsbyggðinni. Í lok árs störfuðu 375 manns hjá okkur!
Metaðsókn var að auki í sumarstörfin okkar, en hátt í 800 umsóknir bárust í þau 180 störf sem voru í boði. Sumarstarfsfólk okkar er 34% af heildarfjölda starfsfólks yfir sumartímann og fyrirtækið fyllist nýrri orku og hugmyndum.

Sumarnemar í Blöndustöð
Viðurkenningar
Þriðja árið í röð hlutum við viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, sem Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) veitir ár hvert. „Það er okkur bæði skylt og ljúft að skara fram úr þegar kemur að jafnréttismálum,“ sagði Harpa mannauðsstjóri við þetta tilefni.

Stoltir handhafar Jafnvægisvogarinnar 2024.
Bjarni ráðinn framkvæmdastjóri
Seinni hluta árs lét Einar Mathiesen af störfum sem framkvæmdastjóri Vinds og jarðvarma, eftir 23 ára farsælt starf hjá Landsvirkjun. Við þökkum honum kærlega fyrir samfylgdina og framlag hans.
Bjarni Pálsson, forstöðumaður þróunar jarðvarma, var ráðinn framkvæmdastjóri í stað Einars og mun hann hefja störf í lok árs. Bjarni hefur borið ábyrgð á stórum verkefnum á borð við stækkun Þeistareykjavirkjunar og leitt vindorkuverkefni fyrirtækisins.

Bjarni Pálsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Vinds og jarðvarma.
Selma kjörin formaður KÍÓ
Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður umbóta og öryggis, var kjörin formaður stjórnar Kvenna í orkumálum (KÍO) á aðalfundi félagsins þann 22. apríl. Ásgerður Sigurðardóttir, sérfræðingur í jarðvarma, situr einnig í stjórn.

Selma Svavarsdóttir, formaður KÍÓ.
Framúrskarandi ungt fólk
Það er gaman þegar utanaðkomandi sjá það sama og við, hvað unga fólkið okkar er framúrskarandi á sínu sviði! Fjórir ungir stjórnendur hjá okkur voru nefndir sérstaklega á listum Góðra samskipta sem vonarstjörnur í sínu fagi - einn var á 40/40 listanum sem er skipaður fólki 40 ára og yngra og þrjú náðu á lista yfir vonarstjörnur í viðskiptalífinu!
- Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptastýringar, var á 40/40 listanum. Valur stýrir samningaviðræðum við stærri viðskiptavini Landsvirkjunar, en þeir samningar eru með þeim stærstu sem gerðir eru á Íslandi.
- Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags og grænna lausna, leiðir vegferð okkar í loftslagsmálum.
- Sveinbjörn Finnsson, forstöðumaður verkefnaþróunar, vinnur að því að þróa verkefni sem skapa tækifæri til að fjárfesta á nýjum sviðum sem geta haft áhrif á loftslagsbreytingar.
- Vordís Eiríksdóttir, forstöðumaður rekstrar jarðvarma, stýrir rekstri jarðvarmavirkjana okkar við Kröflu, Þeistareyki og Bjarnarflag.

Frábæra fólkið okkar, Valur og Vordís vinstra megin og Jóhanna Hlín og Sveinbjörn hægra megin.