Annáll 2024

Enn eitt viðburðaríkt ár í starfsemi okkar líður senn undir lok.

Í sögu fyrirtækisins verður ársins 2024 minnst sem ársins þegar metarður var greiddur og kyrrstaðan í orkuöflun þjóðarinnar var rofin, en leyfi fengust til að hefja framkvæmdir við tvö stór virkjanaverkefni eftir áratuga undirbúning.

Áfram gakk!

Fólkið okkar

Nýtt fólk - ný orka

Við réðum 66 nýja starfsmenn á árinu. 46 með starfsstöð í Reykjavík og 20 á landsbyggðinni. Í lok árs störfuðu 375 manns hjá okkur!

Metaðsókn var að auki í sumarstörfin okkar, en hátt í 800 umsóknir bárust í þau 180 störf sem voru í boði. Sumarstarfsfólk okkar er 34% af heildarfjölda starfsfólks yfir sumartímann og fyrirtækið fyllist nýrri orku og hugmyndum.

Sumarnemar í Blöndustöð
Sumarnemar í Blöndustöð

Viðurkenningar

Þriðja árið í röð hlutum við viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, sem Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) veitir ár hvert. „Það er okkur bæði skylt og ljúft að skara fram úr þegar kemur að jafnréttismálum,“ sagði Harpa mannauðsstjóri við þetta tilefni.

Stoltir handhafar Jafnvægisvogarinnar 2024.
Stoltir handhafar Jafnvægisvogarinnar 2024.

Bjarni ráðinn framkvæmdastjóri

Seinni hluta árs lét Einar Mathiesen af störfum sem framkvæmdastjóri Vinds og jarðvarma, eftir 23 ára farsælt starf hjá Landsvirkjun. Við þökkum honum kærlega fyrir samfylgdina og framlag hans.

Bjarni Pálsson, forstöðumaður þróunar jarðvarma, var ráðinn framkvæmdastjóri í stað Einars og mun hann hefja störf í lok árs. Bjarni hefur borið ábyrgð á stórum verkefnum á borð við stækkun Þeistareykjavirkjunar og leitt vindorkuverkefni fyrirtækisins.

Bjarni Pálsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Vinds og jarðvarma.
Bjarni Pálsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Vinds og jarðvarma.

Selma kjörin formaður KÍÓ

Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður umbóta og öryggis, var kjörin formaður stjórnar Kvenna í orkumálum (KÍO) á aðalfundi félagsins þann 22. apríl. Ásgerður Sigurðardóttir, sérfræðingur í jarðvarma, situr einnig í stjórn.

Selma Svavarsdóttir, formaður KÍÓ.
Selma Svavarsdóttir, formaður KÍÓ.

Framúrskarandi ungt fólk

Það er gaman þegar utanaðkomandi sjá það sama og við, hvað unga fólkið okkar er framúrskarandi á sínu sviði! Fjórir ungir stjórnendur hjá okkur voru nefndir sérstaklega á listum Góðra samskipta sem vonarstjörnur í sínu fagi - einn var á 40/40 listanum sem er skipaður fólki 40 ára og yngra og þrjú náðu á lista yfir vonarstjörnur í viðskiptalífinu!

  • Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptastýringar, var á 40/40 listanum. Valur stýrir samningaviðræðum við stærri viðskiptavini Landsvirkjunar, en þeir samningar eru með þeim stærstu sem gerðir eru á Íslandi.
  • Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags og grænna lausna, leiðir vegferð okkar í loftslagsmálum.
  • Sveinbjörn Finnsson, forstöðumaður verkefnaþróunar, vinnur að því að þróa verkefni sem skapa tækifæri til að fjárfesta á nýjum sviðum sem geta haft áhrif á loftslagsbreytingar.
  • Vordís Eiríksdóttir, forstöðumaður rekstrar jarðvarma, stýrir rekstri jarðvarmavirkjana okkar við Kröflu, Þeistareyki og Bjarnarflag.
Frábæra fólkið okkar, Valur og Vordís vinstra megin og Jóhanna Hlín og Sveinbjörn hægra megin.
Frábæra fólkið okkar, Valur og Vordís vinstra megin og Jóhanna Hlín og Sveinbjörn hægra megin.

Leiðandi á sviði umhverfis og loftslags

Orkufyrirtæki þjóðarinnar ber að sjálfsögðu að vera leiðandi á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

  • Landsvirkjun er fremst opinberra fyrirtækja í sjálfbærnimálum, en við hlutum Sjálfbærniás sem Stjórnvísir veitti í fyrsta sinn á árinu.
F.v. Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis, María Kjartansdóttir, sérfræðingur hjá stefnumótun og sjálfbærni og Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri tóku við Sjálfbærniásnum.
F.v. Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis, María Kjartansdóttir, sérfræðingur hjá stefnumótun og sjálfbærni og Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri tóku við Sjálfbærniásnum.
  • Aftur hæsta einkunn í loftslagsmálum! Landsvirkjun fékk A í einkunn fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa og afleiðinga loftslagsbreytinga á starfsemi fyrirtækisins árið 2023 hjá alþjóðlegu samtökunum CDP.
  • Einnig vorum við á lista Financial Times yfir leiðtoga á sviði loftslagsmála, þriðja árið í röð. Listinn telur upp þau evrópsku fyrirtæki sem hafa minnkað losun á framleiðslueiningu hvað mest. Landsvirkjun og Arion banki eru einu íslensku fyrirtækin á listanum í ár.
  • Til að glíma við loftslagsvána er mikilvægt að skilja hver áskorunin er og hverjar lausnirnar eru. Í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Samorku, Eflu og Grænvang settum við vefinn orkuskipti.is í loftið árið 2022. Í haust var hann svo uppfærður samkvæmt nýjustu upplýsingum og niðurstöðurnar kynntar á opnum fundi.
Haukur Ásberg Hilmarsson, sérfræðingur hjá viðskiptagreiningu fer yfir tölfræði á orkuskipti.is
Haukur Ásberg Hilmarsson, sérfræðingur hjá viðskiptagreiningu fer yfir tölfræði á orkuskipti.is

Fyrsta Kröfluhátíðin

Fyrir frumkvæði okkar frábæra starfsfólks á Kröflustöð var ráðist í það metnaðarfulla verkefni að halda fyrstu Goslokahátíð Kröflu, en í september voru 40 ár liðin frá goslokum.

Hátíðin var haldin í samstarfi við sveitarfélagið og fyrirtæki í nærsamfélaginu og öll lögðust á eitt svo hátíðin yrði að veruleika.

Auglýsing fyrir Goslokahátíð Kröflu 2024.
Auglýsing fyrir Goslokahátíð Kröflu 2024.

Einn af hápunktum hátíðarinnar var frumsýning á nýrri heimildarmynd um Kröflugos og byggingu Kröflustöðvar. Landsvirkjun fjármagnaði framleiðslu myndarinnar, sem var í höndum OB Films, framleiðslufyrirtækis sem er staðsett í Mývatnssveit.

Hægt er að horfa á myndina hér fyrir neðan.

Krafla - umbrot og uppbygging

Helstu ráðstefnur og fundir

Sjá alla viðburði ársins 2024
  • Ársfundurinn okkar bar yfirskriftina Orka í þágu þjóðar. Á honum var lögð þung áhersla á að skera á þá hnúta sem haldið hafa aftur af frekari orkuöflun. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér.
  • Í lok maí fór fram jarðhitaráðstefnan Iceland Geothermal Conference (IGC), en Landsvirkjun var einn bakhjarla hennar. Rúmlega 600 gestir frá öllum heimshornum sóttu ráðstefnuna, enda er Ísland einna lengst komið í nýtingu jarðvarma í heiminum og margt hægt að læra af reynslu okkar.
  • Við héldum fyrstu ráðstefnu okkar um upprunaábyrgðir snemma hausts. Ráðstefnan var haldin í samvinnu við RECS, samtök um upprunaábyrgðir. Hún þótti afar vel heppnuð, en um 150 sérfræðingar í orkubransanum lögðu leið sína til Reykjavíkur til að ræða stöðu upprunaábyrgða í Evrópu. Ráðstefnugestum bauðst að kynna sér Búrfellsstöð II og fengu í leiðinni kynningu á næstu orkuöflunarverkefnum okkar, Hvammsvirkjun og Búrfellslundi.
Jóhanna Hlín heldur erindi á GO ráðstefnu Landsvirkjunar og RECS.
Jóhanna Hlín heldur erindi á GO ráðstefnu Landsvirkjunar og RECS.
  • Við ákváðum síðan að bregða af vananum og færa haustfundinn okkar á Selfoss. Virkjum til velsældar var yfirskrift fundarins og þar var fjallað um samstarf okkar við nærsamfélög aflstöðvanna og framkvæmdirnar sem fram undan eru.

Opnir fundir á einum stað

Við héldum fjölmarga opna fundi á árinu 2024. Hér fyrir neðan getur þú skoðað upptökur frá þeim og hér getur þú nálgast allar upplýsingar um efnistök, fyrirlesara og margt fleira.

Orka í þágu þjóðar

Ársfundur Landsvirkjunar 5. mars

Raforkuöryggi, fyrir hverja?

Fundur um raforkuöryggi 21. nóvember

Orkuskipti.is

Kynningarfundur 14. nóvember

Virkjum til velsældar

Haustfundur Landsvirkjunar 30. október

Raforkumarkaðir, fyrir hverja?

Fundur um raforkumarkaðinn 2. október

Rannsóknir, samstarf og styrkir

  • Orkurannsóknasjóður eflir rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála og veitir styrki til rannsóknaverkefna ár hvert. Í ár var 72 milljónum króna úthlutað til 41 styrkþega!
Ánægðir styrkþegar Orkurannsóknasjóðs 2024 stilla sér upp fyrir myndatöku eftir afhendingu styrkja
Ánægðir styrkþegar Orkurannsóknasjóðs 2024 stilla sér upp fyrir myndatöku eftir afhendingu styrkja
  • Við sömdum um áframhaldandi samstarf við Háskólann í Reykjavík, en samið var um stuðning til rannsókna í þriðja sinn. Landsvirkjun leggur fram 65 milljónir króna samtals á næstu 5 árum til að efla rannsóknir HR á sviði orkumála, loftslagsmála og sjálfbærni.
  • Í mars gerðum við grænan raforkusamning við Laxey, sem stefnir á uppbyggingu nýrrar landeldisstöðvar í Vestmannaeyjum. Um er að ræða hátæknimatvælaframleiðslu með afar lítið kolefnisspor.

Landsvirkjun, ásamt umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og Rótarý Ísland, stóðu saman að stuðningi við Stóra plokkdaginn. Áfram plokkið!

Samfélagsmiðlar og hlaðvarp

Þar sem við siglum inn í framkvæmdatíma hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að halda almenningi, eigendum okkar, upplýstum.

Ásamt því að deila efni á vefinn okkar og opna vefsíður um stærri framkvæmdir; byggingu Hvammsvirkjunar og vindorkuversins við Vaðöldu, skrifar starfsfólk okkar greinar í blöðin, bloggar, heldur úti hlaðvarpi ásamt því að deila fréttum, upplýsingum og áhugaverðum molum á öllum helstu samfélagsmiðlum.

Grænvarpið - þættir ársins

Með doktorspróf í laxi

Sigurður Guðjónsson

Hringrásarhagkerfið

Ívar Kristinn Jasonarson

Viljum vera góðir grannar

Guðmundur Finnbogason

Þróun raforkumarkaða

Úlfar Linnet

Konur í orkumálum

Hildur Harðardóttir og Selma Svavarsdóttir

Annasamt starf stöðvarstjóra

Georg Þór Pálsson

Orkunýtni og orkuþörf

Jóna Bjarnadóttir

Vindorka

Unnur María Þorvaldsdóttir

Hvammsvirkjun

Ólöf Rós Káradóttir

Fylgdu okkur!

Við erum alltaf að miðla fjölbreyttu, fróðlegu og skemmtilegu efni á samfélagsmiðlum okkar.

Við hvetjum þig til að fylgja okkur á nýju ári – það verður svo sannarlega nóg að gerast. Ef þú hefur rosalega mikinn áhuga á því hvað er að gerast hjá okkur skaltu líka skrá þig á póstlistann okkar.