Áramótaannáll 2022

Viðburðaríkt ár í rekstri Landsvirkjunar er senn á enda. Við höfum náð frábærum árangri á sviði loftslagsmála, komum skriði á framkvæmdir næstu ára og tókumst á við krefjandi verkefni í byrjun árs þegar vatnsstaðan var vægast sagt erfið.

Staða orkufyrirtækis þjóðarinnar hefur aldrei verið betri og við hlökkum til næstu kafla í sögu okkar.

Rekstur

Rekstrarniðurstaða fyrstu níu mánaða ársins var betri en nokkru sinni fyrr í sögu Landsvirkjunar!

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði jókst um 57% miðað við sama tímabil í fyrra.

Þessa aukningu má rekja til hærra raforkuverðs til stórnotenda sem og skýrra rekstrarmarkmiða.

Við greiddum einnig upp 50 milljón dollara skuldabréf en það eru um 7,1 milljarður íslenskra króna.

Endurkaup skuldabréfanna endurspegla sterka fjárhagsstöðu Landsvirkjunar og eru liður í skuldastýringu fyrirtækisins.

Stöðugleiki

Við tilkynntum að söluverð grunnorku héldist óbreytt út árið 2023, þrátt fyrir almenna hækkun verðlags í samfélaginu.

Loftslagsmál

Landsvirkjun komst á lista Financial Times – Europe Climate Leaders og á A lista CDP, fyrst íslenskra fyrirtækja enda er losun okkar á orkueiningu meðal þess lægsta sem þekkist í heiminum.

Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar úthlutaði 35 styrkjum á árinu, alls 59 milljónum króna.

Verkefnin sem voru valin stuðla öll að öflun, dreifingu eða rannsóknum á endurnýjanlegari orku og rannsóknum á náttúru og umhverfi sem því tengist.

Í byrjun sumars sögðum við frá nýju verkefni sem er ætlað að fanga og dæla niður koldíoxíði frá Þeistareykjastöð og jafnframt draga úr losun koldíoxíðs frá Kröflustöð með stýringu á vinnslu þar. Þetta verkefni hefur hlotið heitið Koldís. Búist er við að framkvæmdir geti hafist á næsta ári og að Koldís verði komin í fullan rekstur árið 2025.

Orkuskiptin

Við hófum samstarf við Eimskip, Icelandair og Verne varðandi skref til orkuskipta á Íslandi. Við sömdum einnig við PPC SE um að rannsaka möguleika þess að fanga og nýta útblástur frá kísilmálmsverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík til framleiðslu á grænu metanóli.

Nú þegar hefur eitt þessara verkefna sannarlega tekið flugið en fyrsta rafmagnsflugvél Íslands kom til landsins í sumar.

Landsvirkjun og Landeldi gerðu einnig 20 MW grænan raforkusamning.

Samningurinn ber nýjum áherslum í orkusölu Landsvirkjunar vitni, en fyrirtækið hefur lýst því yfir að ein af megináherslum næstu ára þegar kemur að raforkusölu verði nýsköpun sem krefst orku og eykur fjölbreytni atvinnulífs, m.a. í matvælaiðnaði.

Í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Samorku og Eflu opnuðum við nýjan upplýsingavef fyrir almenning um orkuskiptin á Íslandi.

Framkvæmdir

Hvammsvirkjun fékk virkjunarleyfi frá Orkustofnun og við stefnum á að hefja framkvæmdir næsta sumar.

Við sóttum einnig um virkjunarleyfi fyrir Búrfellslund en Landsvirkjun hefur frá árinu 2012 rannsakað hagkvæmni þess að reisa vindlund norðan Búrfells. Uppsett afl er 120 MW og er fyrirhugað virkjunarsvæði innan stærsta orkuvinnslusvæðis fyrirtækisins, Þjórsár- og Tungnaársvæðis.

Reynsla af rekstri tveggja rannsóknavindmylla á Hafinu norðan við Búrfell síðasta áratug hefur leitt í ljós að staðsetningin er óvenjuhagstæð fyrir raforkuvinnslu úr vindafli.

Erlend verkefni

Vatnsaflsstöðin Akhalkalaki í Georgíu, sem Landsvirkjun á hlut í og hefur tekið þátt í að reisa, var tekin í notkun síðla árs.

Eignarhlutur Landsvirkjunar er í gegnum dótturfélagið Landsvirkjun Power, sem heldur utan um erlend verkefni fyrirtækisins. Tilgangur Landsvirkjunar Power er að flytja út þá sérþekkingu sem við Íslendingar höfum aflað okkur á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og stuðla þannig að orkuskiptum erlendis.

Félagið veitir ráðgjöf við undirbúning, byggingu og rekstur endurnýjanlegra virkjunarkosta og tekur þátt í þróun þeirra.

Annáll 2022

Aðrar fréttir ársins

... og svo var heilmikið annað að frétta!

Við ýttum öflugum samstarfsverkefnum úr vör, kynntum forgangsröðun okkar í orkusölu, fengum viðurkenningar og verðlaun, veittum fjölbreyttum nýsköpunarverkefnum stuðning, lukum byggingu brúar yfir Þjórsá og skrifuðum fullt af fróðlegum greinum svo fátt eitt sé nefnt.