Betri nýting auðlinda

Sjálfbær orkuvinnsla lýsir því hvernig orkulind er nýtt en endurnýjanleiki lýsir eðli hennar. Endurnýjanlega auðlind er þannig hægt að nýta á sjálfbæran eða ósjálfbæran hátt.

Við leggjum ríka áherslu á að lágmarka það rask sem starfsemi okkar hefur í för með sér

Við leggjum mikla áherslu á að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti, með tilliti til áhrifa á efnahag, samfélag og umhverfi. Viðkvæm jarðhitasvæði er nauðsynlegt að byggja upp í þrepum og gefa tíma til þess að bregðast við nýtingu. Í vatnsaflsvirkjunum er leitast við að hámarka nýtingu auðlindarinnar að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða sem miða að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Landsvirkjun leggur áherslu á að efla samráð og samstarf við hagsmunaaðila á svæðum þar sem uppbygging er fyrirhuguð og tryggja sem besta sátt um ný verkefni.

Við erum með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðastaðlinum ISO 14001 og við höfum farið í gegnum ferli sem felur í sér stefnumótun á sviði umhverfismála og ítarlega skoðun á hvaða umhverfisáhrif starfsemi fyrirtækisins hefur. Frá árinu 2006 hefur fyrirtækið gefið út árlegar umhverfisskýrslur þar sem ítarlega er fjallað um umhverfisstjórnunarkerfið, vöktun umhverfisþátta og markmið fyrirtækisins í umhverfismálum. Lögð er áhersla á heiðarlega og opinskáa framsetningu gagna um árangur fyrirtækisins í umhverfismálum sem stuðla að opinni og málefnalegri umræðu um málaflokkinn.