Betri nýting auðlinda

Sjálfbær orkuvinnsla lýsir því hvernig orkulind er nýtt en endurnýjanleiki lýsir eðli hennar. Endurnýjanlega auðlind er þannig hægt að nýta á sjálfbæran eða ósjálfbæran hátt.

Við leggjum ríka áherslu á að lágmarka það rask sem starfsemi okkar hefur í för með sér

Við leggjum mikla áherslu á að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti, með tilliti til áhrifa á efnahag, samfélag og umhverfi. Viðkvæm jarðhitasvæði er nauðsynlegt að byggja upp í þrepum og gefa tíma til þess að bregðast við nýtingu. Í vatnsaflsvirkjunum er leitast við að hámarka nýtingu auðlindarinnar að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða sem miða að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Landsvirkjun leggur áherslu á að efla samráð og samstarf við hagsmunaaðila á svæðum þar sem uppbygging er fyrirhuguð og tryggja sem besta sátt um ný verkefni.

Við erum með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðastaðlinum ISO 14001 og við höfum farið í gegnum ferli sem felur í sér stefnumótun á sviði umhverfismála og ítarlega skoðun á hvaða umhverfisáhrif starfsemi fyrirtækisins hefur. Frá árinu 2006 hefur fyrirtækið gefið út árlegar umhverfisskýrslur þar sem ítarlega er fjallað um umhverfisstjórnunarkerfið, vöktun umhverfisþátta og markmið fyrirtækisins í umhverfismálum. Lögð er áhersla á heiðarlega og opinskáa framsetningu gagna um árangur fyrirtækisins í umhverfismálum sem stuðla að opinni og málefnalegri umræðu um málaflokkinn.

Vatnsafl

Vatnsorka er endurnýjanleg orka, þar sem orkulindin endurnýjar sig stöðugt þótt af þeim sé tekið og helst þannig í jafnvægi af náttúrunnar hendi.

Við orkuvinnslu með vatnsafli er hreyfiorka vatnsins nýtt í stöðugri hringrás þess um land, sjó og loft. Ísland er staðsett í miðju lægðabelti Atlantshafsins þar sem úrkoma er mikil. Hér á landi rennur mikið af vatninu frá hálendinu og niður á láglendi sem gerir landið ákjósanlegt til vatnsorkuvinnslu.

Jarðvarmi

Orka unnin úr jarðvarma er endurnýjanleg orka, þar sem orkulindin endurnýjar sig stöðugt þótt af þeim sé tekið og helst þannig í jafnvægi af náttúrunnar hendi.

Ísland er staðsett á eldvirkum Atlantshafshryggnum og hér er auk þess mikil úrkoma árið um kring. Það gerir landið sérlega ríkt af jarðvarmaauðlindum þar sem krafturinn í iðrum jarðar hitar upp vatn sem seytlar sífellt ofan í jarðgrunninn. Hér á landi hefur auk þess skapast mikil sérþekking á jarðvarmavinnslu sem gerir okkur kleift að nýta þessar auðlindir á sjálfbæran hátt.

Vindur

Vindsorka er endurnýjanleg orka, þar sem orkulindin endurnýjar sig stöðugt og helst þannig í jafnvægi af náttúrunnar hendi.

Vindmyllur umbreyta hreyfiorku vindsins í raforku. Staðsetning Íslands í miðju lægðabelti Atlantshafsins gerir landið að vindasömum stað með mikla möguleika á frekari nýtingu vindorku.