10 milljarða arðgreiðsla Landsvirkjunar

22.04.2020Fjármál

Jónas Þór Guðmundsson endurkjörinn stjórnarformaður.

Á aðalfundi Landsvirkjunar, sem haldinn var í dag, samþykktu eigendur tillögu stjórnar um arðgreiðslu til íslenska ríkisins að fjárhæð 10 milljarðar króna fyrir árið 2019. Það er ríflega tvisvar sinnum hærri arðgreiðsla en á síðasta ári, þegar hún nam 4,25 milljörðum kr. Árin þar á undan nam arðgreiðslan 1,5 milljörðum kr. árlega.

Á fundinum kom fram að ríkið gerir arðsemiskröfu til eigin fjár Landsvirkjunar upp á 7,5%.

Á aðalfundinum skipaði fjármála- og efnahagsráðherra í stjórn Landsvirkjunar samkvæmt lögum um fyrirtækið. Ekki voru gerðar breytingar á skipan stjórnar frá fyrra starfsári.

Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru: Jónas Þór Guðmundsson, Álfheiður Ingadóttir, Jón Björn Hákonarson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason.

Aðalfundurinn staðfesti skýrslu fráfarandi stjórnar og samstæðureikning fyrir liðið reikningsár.

Rafræna ársskýrslu og ársreikning Landsvirkjunar fyrir árið 2019 má finna á arsskyrsla2019.landsvirkjun.is

Deloitte ehf. var kosið endurskoðunarfyrirtæki Landsvirkjunar að fenginni tillögu Ríkisendurskoðunar.

Jónas Þór endurkjörinn

Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund var Jónas Þór Guðmundsson endurkjörinn formaður stjórnar og Álfheiður Ingadóttir var kjörin varaformaður.