Ábyrgð og auðlindir
Landsvirkjun var í vikunni útnefnd umhverfisfyrirtæki ársins 2023 af Samtökum atvinnulífsins. Það er ánægjulegt að fá viðurkenningu á því umfangsmikla starfi sem fer fram hjá okkur í umhverfis- og loftslagsmálum. Við erum með skýra stefnu og henni fylgja markmið og tímasettar aðgerðir.

Landsvirkjun, orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar, framleiðir rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum á fimm starfssvæðum víðs vegar um landið. Við tökum þeirri ábyrgð alvarlega að vinna með náttúruauðlindir. Við þekkjum umhverfisáhrif starfseminnar vel og vinnum stöðugt að því að draga úr þeim eins og kostur er á öllum stigum; við hönnun nýrra virkjana, í framkvæmdum og í rekstri.
Við hjá Landsvirkjun gerum einnig ríkar kröfur til þeirra sem við vinnum með um að draga úr losun og koma í veg fyrir umhverfisatvik. Við beitum til dæmis innra kolefnisverði við ákvarðanatöku og vorum fyrsta íslenska fyrirtækið til að taka það verkfæri í notkun.