Ærsladraugar særðir niður á Akbraut í Holtum

30.06.2020Samfélag

Fjallað um málið í Sumarlandanum á RÚV.

Daníel Magnússon, bóndi á Akbraut, og séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson, sem fór með húsblessun og bænir.
Daníel Magnússon, bóndi á Akbraut, og séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson, sem fór með húsblessun og bænir.

Yfirskilvitlegir atburðir áttu sér stað í fjósinu hjá Daníel Magnússyni, bónda á Akbraut í Holtum, fyrir rúmum sautján árum. Skyndilega hvarf hundurinn hans í dimmri þoku, kýrnar ærðust og Daníel fann þrýsting eins og hann væri á kafi í djúpu, ísköldu vatni. Að vonum varð Daníel felmtri sleginn við ósköpin og hugðist hlaupa af vettvangi, en þá var eins og hönd klappaði á öxl hans og hvíslaði: „vertu rólegur, það er verið að reyna að flæma þig í burtu.“ Róaðist Daníel þá og hvarf þokan við það sama.

Daníel tengdi þennan viðburð við öfund vegna árangurs sem hann hafði náð í kúarækt, en í samráði við Daníel fengum við séra Kristin Ágúst Friðleifsson til að særa niður þessa öfundar-ærsladrauga með bænum og húsblessun. Sumarlandinn, með Gísla Einarsson ritstjóra í fararbroddi, var á staðnum og fylgdist með því þegar séra Kristinn Ágúst fór með bænir og særði burt óróleikann.

Landsvirkjun eignaðist gömlu Akbraut fyrir um tíu árum, en þá flutti Daníel í nýjan bæ sunnar í landinu. Aðkoma að stöðvarhúsi fyrirhugaðrar Holtavirkjunar verður þar sem gamli bærinn er núna og verður hann rifinn í sumar. Holtavirkjun er í nýtingarflokki samkvæmt tillögum verkefnastjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar, sem ekki hafa verið lagðar fyrir Alþingi. Óljóst er því hvenær af framkvæmdum verður.

Að særingum loknum sagðist séra Kristinn Ágúst ekki hafa orðið var við óróa á staðnum, heldur einungis frið. Hann segir að sú sé ekki nándar nærri alltaf raunin, en séra Kristinn Ágúst hefur mikla reynslu af svipuðum athöfnum.

Þátt Landans um særingarnar má nálgast hér