Samstarfið endurnýjað til 2026
Orkuskipti og orkutengd nýsköpun hafa verið viðfangsefni Bláma frá stofnun og nú hefur samstarf um rekstur Bláma verið endurnýjað til 2026. Frá stofnun hefur Blámi unnið að verkefnum sem snúa að orkuskiptum á sjó og landi og unnið náið með hagaðilum á Vestfjörðum.
Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu. Við stofnun var Blámi þriðja svæðisbundna samstarfsverkefnið sem Landsvirkjun kom á fót ásamt samstarfsaðilum, en fyrir voru Eimur á Norðurlandi og Orkídea á Suðurlandi. Síðar bættist við Eygló á Austurlandi.
Eimur, Orkídea, Blámi og Eygló hafa sannað að með góðu samstarfi er auðveldara að raungera verkefni sem lúta að orkuskiptum. Við hjá Landsvirkjun bindum miklar vonir við árangur þeirra í náinni framtíð.