Ágæt afkoma þrátt fyrir erfiðan vatnsbúskap

08.05.2024Fjármál

Árshlutareikningur Landsvirkjunar frá janúar til mars er kominn út.

Uppgjör fyrsta ársfjórðungs

Árshlutareikningur janúar til mars 2024

Hagnaður af grunnrekstri Landsvirkjunar á fyrsta ársfjórðungi nam 10,7 milljörðum kr. og handbært fé frá rekstri 14 milljörðum króna. Erfið staða í vatnsbúskap fyrirtækisins og skerðingar sökum hennar settu nokkurn svip á afkomu fyrirtækisins á ársfjórðungnum.

Fjárhagsstaða Landsvirkjunar hefur aldrei verið betri, eiginfjárhlutfall er 65,9% og skuldsetning komin niður í 1,3x rekstrarhagnað fyrir afskriftir.

Hörður Arnarson, forstjóri:

Upplýsingar úr uppgjöri janúar til mars 2024

„Rekstur Landsvirkjunar á fyrsta ársfjórðungi gekk vel miðað við aðstæður. Eftir tvö einstök rekstrarár í sögu fyrirtækisins er afkoman áfram góð.

Hagnaður af grunnrekstri nam 77,4 milljónum bandaríkjadala á fjórðungnum og minnkaði um tæp 29% frá sama tímabili í fyrra. Handbært fé frá rekstri nam 101 milljón dala og dróst saman um tæp 30%. Bæði hagnaður af grunnrekstri og handbært fé frá rekstri stóðust þó samanburð við fyrsta ársfjórðung 2022, sem þá var metár.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Erfið staða í vatnsbúskap fyrirtækisins og skerðingar sökum hennar settu nokkurn svip á afkomu Landsvirkjunar á ársfjórðungnum. Selt magn dróst af þeim sökum saman um 6% frá sama tíma í fyrra. Meðalverð til stórnotenda lækkaði einnig miðað við sama tímabil á síðasta ári. Lækkunina má að mestu rekja til þess að verðtenging við Nordpool-markaðinn í samningi við einn stórnotanda féll niður í lok síðasta árs. Rekstrartekjur á fyrsta fjórðungi drógust saman um 18% miðað við sama tímabil árið 2023.

Áfram batnar fjárhagsstaða Landsvirkjunar. Nettó skuldir lækkuðu um 95 milljónir bandaríkjadala frá áramótum og eiginfjárhlutfall er hærra en nokkru sinni fyrr í sögu fyrirtækisins, eða 65,9%.“