Áhersla á öryggi og trygga raforku­vinnslu

03.04.2020Fyrirtækið

Öll raforkuvinnsla Landsvirkjunar, á fimm starfssvæðum fyrirtækisins, gengur eftir áætlun.

Öll raforkuvinnsla Landsvirkjunar, á fimm starfssvæðum fyrirtækisins, gengur eftir áætlun. Landsvirkjun hefur gripið til ýmissa ráðstafana vegna Covid-19, með það að leiðarljósi að tryggja samtímis öryggi starfsmanna sinna og áfallalausan rekstur.

Landsvirkjun rekur fimmtán vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur á fimm starfsstöðvum víðs vegar um landið. Forði i miðlunarlónum vatnsaflsvirkjana er undir meðallagi eftir erfiðan vetur, en þrátt fyrir það er ekki útlit fyrir að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana til að spara vatn og ef tíðarfar verður hagfellt í sumar er allt útlit fyrir að lónin nái að fyllast í haust.

Strangar öryggisreglur á starfsstöðvum

Að sögn Einars Mathiesen, formanns neyðarstjórnar Landsvirkjunar, hefur neyðarstjórnin fylgst náið með framvindu mála frá því að umfjöllun um Covid-19 fór að berast frá Kína í byrjun árs. Neyðarstjórnin virkjaði viðbragðsáætlun 28. janúar og hefur viðbragðsstig Landsvirkjunar fylgt viðbragðsstigi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

„Vegna Covid-19 hefur Landsvirkjun sett strangar öryggisreglur á starfsstöðvum sínum, sent það starfsfólk heim sem starfað getur að heiman og breytt vaktaskipulagi,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. „Rekstur stöðvanna gengur áfram vel og þær varnir sem voru settar upp með vönduðum undirbúningi og skýru verklagi hafa reynst vel. Ekki er farið í heimsókn í aflstöðvar nema brýna nauðsyn beri til og með samþykki viðkomandi stöðvarstjóra. Starfsemi aflstöðvanna er þannig varin eftir megni og hefur engin röskun orðið á vinnslu þeirra.

Hörður segir að í höfuðstöðvunum við Háaleitisbraut og á skrifstofu Landsvirkjunar á Akureyri hafi starfsemin breyst mikið og þessar starfsstöðvar séu nánast mannlausar. „Nær öll störf sem hægt er að vinna utan starfsstöðvar er nú unnin heima. Starfsfólk hefur haldið vinnu sinni áfram með hjálp góðra innviða og góðrar nýtingar upplýsingatækni af margvíslegum toga. Þar hefur allt gengið að óskum.“

Áhersla á að verja grunnstarfsemina

Hörður bætir við að Landsvirkjun hafi fylgst náið með öllum tilmælum Almannavarna frá upphafi faraldurs og tekið þann kostinn að ganga fremur lengra en skemur í aðgerðum sínum. Þar hafi öll áhersla verið á að verja grunnstarfsemi fyrirtækisins. „Nýframkvæmdir, endurbætur og sú viðhaldsvinna sem þolir bið þurfa að víkja þar til núverandi ástand er um garð gengið. Við vonum auðvitað að það óvissuástand sem fylgir Covid-19 í samfélaginu gangi yfir sem allra fyrst. Framlag Landsvirkjunar er að hvika hvergi frá ýtrustu öryggiskröfum í raforkuvinnslu fyrir þjóðina.“

Yfirlit yfir aðgerðir Landsvirkjunar vegna Covid-19