Áherslur í orkusölu

01.06.2022Fyrirtækið
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Eftirspurn eftir raforku á Íslandi er meiri en framboðið. Græna orkan okkar verður sífellt verðmætari og eftirspurn eftir henni mun aukast enn meira. Framboðið er takmarkað og það tekur tíma að byggja nýjar virkjanir þar sem við þurfum að vanda til verka.

Við þessar aðstæður þarf Landsvirkjun að forgangsraða áherslum í orkusölu til næstu ára. Í því felst að við munum ekki leggja áherslu á að fá nýja stórnotendur í málmiðnaði eða hrávöruvinnslu í viðskipti. Og við munum á þessu stigi ekki heldur leggja áherslu á útflutning orku.

Hægt er að skipta mikilli eftirspurn eftir grænu raforkunni í fimm flokka:

  • Í fyrsta lagi er aukin almenn raforkunotkun í samfélaginu og til innlendra orkuskipta óumflýjanleg, sem orkufyrirtæki þjóðarinnar ber að sinna.
  • Í öðru lagi er mikilvægt að styðja við aukna stafræna vegferð til dæmis í gagnaverum (þó ekki til rafmyntavinnslu) og við nýsköpun, meðal annars í fjölnýtingu og matvælavinnslu, sem krefst orku og eykur fjölbreytni atvinnulífs um allt land.
  • Í þriðja lagi viljum við styðja við framþróun núverandi stórnotenda. Það höfum við gert allt frá stofnun en nýir tímar skapa tækifæri til að efla samkeppnishæfni þeirra og auka framleiðslu á virðisaukandi vöru. Slík þróunarverkefni eru til hagsbóta fyrir samfélagið allt og kalla reglulega á aukna raforkunotkun.
  • Í fjórða lagi er eftirspurn frá nýjum stórnotendum í málmiðnaði og hrávöruvinnslu sem vilja hefja hér starfsemi, sem við munum ekki geta sinnt.
  • Í fimmta lagi er útflutningur á orku með rafeldsneyti eða sæstreng. Markaður fyrir útflutning á rafeldsneyti mun án efa verða til í náinni framtíð, en er þó ekki enn við sjónarrönd. Sæstrengur krefst meiri umræðu innanlands áður en lengra er haldið og sterkrar pólitískrar leiðsagnar, líkt og verið hefur í Noregi.

Fyrstu þrír flokkarnir verða að hafa forgang næstu árin, þó vissulega séu hinir möguleikarnir áhugaverðir í framtíðinni.

Hörður Arnarson,
forstjóri Landsvirkjunar

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júní 2022