Aldrei meiri tekjur og tillaga um 15 milljarða kr. arðgreiðslu

18.02.2022Fjármál

Helstu atriði ársreiknings Landsvirkjunar 2021

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 227,1 milljón USD (29,5 ma.kr.), en var 138,7 milljónir USD árið áður og hækkar því um 63,7%. [1]
  • Hagnaður ársins var 148,6 milljónir USD (19,3 ma.kr.), en var 78,6 milljónir USD árið áður.
  • Rekstrartekjur námu 558,8 milljónum USD (72,6 ma.kr.) og hækka um 105,3 milljónir USD (23,2%) frá árinu áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 175,0 milljónir USD (22,8 ma.kr.) frá áramótum og voru í árslok 1.500,8 milljónir USD (195,1 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 323,3 milljónum USD (42,0 ma.kr.), sem er 38,1% hækkun frá árinu áður.

[1] Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 130

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Eftir óvissu og erfiðleika í rekstrarumhverfi fyrirtækisins í byrjun veirufaraldursins á árinu 2020 varð mjög jákvæð þróun á rekstri Landsvirkjunar á árinu 2021. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem við lítum helst til þegar afkoma fyrirtækisins er skoðuð, var 29,5 milljarðar króna og hækkaði um 64% á milli ára í Bandaríkjadal talið. Rekstrartekjur Landsvirkjunar jukust um rúm 23% frá fyrra ári og voru meiri en áður í sögu félagsins.

Bætta afkomu má rekja til mikils bata í rekstrarumhverfi stórnotenda viðskiptavina okkar og Landsvirkjunar sjálfrar. Þegar leið á síðasta ár varð raforkukerfið á Íslandi fulllestað og eftirspurn mikil frá fjölbreyttum viðskiptavinum.

Selt heildarmagn jókst um 5% á milli ára. Meðalverð inn á heildsölumarkað til heimila og smærri fyrirtækja hækkaði ekki frá fyrra ári, var 5,3 kr/kWst, á meðan meðalverð til stórnotenda hækkaði um 55% og var 32,7 USD/MWst. Hækkunina má einkum rekja til hagstæðra ytri skilyrða á ál og orkumörkuðum og þess að endursamið hefur verið við flest fyrirtækin og greiða þau sambærileg verð og þau greiða í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Bætta afkomu Landsvirkjunar á síðasta ári má því alfarið rekja til hækkunar á tekjum af sölu til stórnotenda.

Áfram héldum við á þeirri braut að lækka skuldir. Nettó skuldir lækkuðu um tæpa 23 milljarða króna (175 milljónir Bandaríkjadala) frá upphafi árs. Helstu skuldahlutföll eru nú orðin sambærileg og þau eru hjá systurfyrirtækjum okkar á Norðurlöndunum, sem er árangur sem við erum stolt af. Lykilmælikvarðinn nettó skuldir/EBITDA lækkaði umtalsvert á síðasta ári og eru hreinar skuldir nú aðeins um 3,5-faldur rekstrarhagnaður fyrir afskriftir. Ekki er því lengur þörf á að leggja áherslu á hraða lækkun skulda og hefur arðgreiðslugeta fyrirtækisins þar af leiðandi aukist. Í þessu ljósi áformar stjórn fyrirtækisins að leggja til við aðalfund um 15 milljarða kr. (120 milljóna Bandaríkjadala) arðgreiðslu vegna síðasta árs.

Þessi góða fjárhagsstaða Landsvirkjunar er góður grunnur fyrir þær áskoranir sem framundan eru á vegferðinni að grænni og loftslagsvænni framtíð samfélagsins. Í undirbúningi eru nokkur verkefni tengd aukinni orkuvinnslu sem mögulegt verður að hefja síðar á þessu ári. Tækifærin eru fjölmörg og við höfum þegar hafist handa við undirbúning verkefna sem stuðla að orkuskiptum innanlands og metnaðarfullum markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum.

Sem fyrri ár gekk rekstur aflstöðva vel, þrátt fyrir ýmsar áskoranir sem fylgdu COVID-19 faraldrinum. Við erum því vel í stakk búin til þess að takast á við þau verkefni sem framtíðin ber í skauti sér.“