Allar skerðingar afnumdar

19.04.2022Orka

Allar skerðingar til raforkukaupenda hafa nú verið afnumdar.

Vatnsstaðan í miðlunarlónum Landsvirkjunar fer hratt batnandi. Í ljósi þess hefur Landsvirkjun nú tilkynnt fiskimjölsverksmiðjum og fiskþurrkunum að skerðingar á afhendingu til þeirra séu afturkallaðar.

Þar með lýkur einum erfiðasta vetri í vinnslukerfi Landsvirkjunar, en strax í desember þurfti fyrirtækið að grípa til takmarkana í afhendingu á rafmagni vegna lélegs vatnafars. Nægur snjór er núna á hálendinu eftir mikla úrkomu í vetur. Hlýindi og rigning á landinu í lok mars og nú aftur um páskana hefur skilað hluta snævarins inn í miðlunarlónin. Þetta er að gerast tiltölulega snemma vors. Horfur um fyllingu miðlunarlóna er góð, en jökulbráðnun seinni hluta sumar ákvarðar hvort þau nái að fyllast alveg í haust.