Árangursrík aðlögun að íslenskum aðstæðum
Evrópuþjóðir renna nú öfundaraugum til Íslands vegna þess einstaka raforkukerfis og -markaðar sem okkur hefur tekist að byggja hér upp. Þetta er eina einangraða raforkukerfið í heiminum með 100% endurnýjanlega orku. Því fylgja að sjálfsögðu ýmsar áskoranir en þegar horft er til mikilvægustu eiginleika orkukerfa kemur í ljós að við stöndum líklega betur en öll önnur lönd með:
- nýtingu endurnýjanlegrar orku
- stöðugt, lágt orkuverð til almennings og örugga afhendingu
- mjög góða nýtingu kerfisins
- samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir stórnotendur
- viðunandi arðsemi orkuvinnslunnar
Þetta hefur tekist með því að laga virkt viðskiptaumhverfi að íslenskum aðstæðum. Með því að tvískipta markaðnum hefur heimilum og smærri fyrirtækjum verið tryggð örugg orka á sanngjörnu og stöðugu verði. Um leið hefur verið skapað samkeppnishæft umhverfi fyrir stórnotendur með gerð langtímasamninga sem leiðir til fyrirsjáanleika í rekstri en einnig sveigjanleika.
Fyrirsjáanleiki í eftirspurn til nokkurra ára og góð þekking á náttúruauðlindinni er nauðsynleg til að stýra kerfi þar sem orkuvinnslan stjórnast af náttúrunni. Nýtingin er til að mynda hámörkuð með þeirri séríslensku nálgun að selja skerðanlega orku til þeirra sem geta dregið úr notkun þegar illa árar.