Ársreikningur Landsvirkjunar 2019

28.02.2020Fyrirtækið

Ásættanleg afkoma við krefjandi ytri aðstæður.

Helstu atriði ársreiknings

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 173,3 milljónum USD (21,0 ma.kr.), en var 184,1 milljón USD á sama tímabili árið áður og lækkar því um 5,9% milli tímabila. [1]
  • Hagnaður tímabilsins var 112,7 milljónir USD (13,6 ma.kr.) en var 121,0 milljón USD á sama tímabili árið áður.
  • Rekstrartekjur námu 509,6 milljónum USD (61,7 ma.kr.) og lækka um 24,3 milljónir USD (4,6%) frá sama tímabili árið áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 193,1 milljón USD (23,4 ma.kr.) frá áramótum og voru í árslok 1.691,5 milljónir USD (204,7 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 295,8 milljónum USD (35,8 ma.kr.) sem er nánast óbreytt frá árinu áður.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Rekstur Landsvirkjunar litaðist af erfiðum ytri aðstæðum á árinu 2019, eins og árið áður. Afurðaverð stórra viðskiptavina var lágt og hafði það neikvæð áhrif á tekjur, enda er hluti samninga enn bundinn við þróun álverðs. Þá varð tekjutap upp á um 16 milljónir dollara af stöðvun kerskála þrjú hjá álveri Rio Tinto í Straumsvík.

Þótt óveðrið í desember hafi ekki valdið truflunum í rekstri aflstöðva Landsvirkjunar hafði það áhrif á rekstur Landsnets, sem er hluti af samstæðu Landsvirkjunar. Atburðarásin í desember staðfestir að brýn þörf er á því að styrkja flutningskerfi raforku á Íslandi.

Áfram gekk vel að lækka nettó skuldir, sem eru nú komnar niður í 1.691 milljón Bandaríkjadala og lækkuðu um 193 milljónir á árinu. Matsfyrirtækið Moody's hækkaði lánshæfiseinkunn fyrirtækisins á árinu og S&P Global Ratings breytti horfum á sinni einkunn úr stöðugum í jákvæðar. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem Landsvirkjun horfir til við mat á grunnrekstri fyrirtækisins, var ásættanlegur miðað við aðstæður, en lækkaði um 5,9% milli ára.“

[1] Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 121.