Aukinn sveigjanleiki fyrir sölufyrirtæki í samningum við Landsvirkjun

19.10.2021Viðskipti

Sveigjanleiki sölufyrirtækja rafmagns í viðskiptum við Landsvirkjun á heildsölumarkaði hefur verið aukinn enn frekar, en þeim standa nú til boða sveigjanlegir grunnorkusamningar. Notkun heimila og fyrirtækja á raforku er breytileg innan dags sem og á milli árstíða og því er nauðsynlegt að samningar sem eru í boði hjá Landsvirkjun endurspegli þessa breytilegu notkun.

Aukin samkeppni á raforkumarkaði

Landsvirkjun selur sölufyrirtækjum raforku í gegnum heildsölumarkað. Sölufyrirtækin eru átta og selja raforku til heimila og fyrirtækja. Almennt afla sölufyrirtækin orku með eigin vinnslu, kaupum af raforkuframleiðendum í gegnum heildsölumarkað eða hvoru tveggja. Hlutdeild Landsvirkjunar á heildsölumarkaði hefur farið minnkandi undanfarin ár og er í dag rúmlega 40% af forgangsorku. Á sama tíma hafa viðskipti á milli annarra aðila á heildsölumarkaði farið vaxandi, sem er til marks um aukna samkeppni á markaðnum.

Einnig hefur hlutfall heimila sem kjósa að skipta um sölufyrirtæki hækkað úr 0,3% árið 2017 í um 3% árið 2021, sem er ánægjuleg þróun. Á hinum Norðurlöndunum er samsvarandi hlutfall 8-20%. Fjöldi fyrirtækja sem skipt hafa um sölufyrirtæki hérlendis hefur einnig margfaldast undanfarin ár. Aukin skipti notenda á milli sölufyrirtækja og lækkandi raunverð eru til marks um aukna samkeppni á raforkumarkaði.

Raunverðslækkun á heildsölumarkaði

Verð Landsvirkjunar á heildsölumarkaði hefur hækkað minna en sem nemur breytingum á vísitölu neysluverðs á undanförnum árum. Lægsta verð sölufyrirtækja til notenda hefur einnig lækkað á föstu verðlagi, eða um 20% frá 2018. Verðlagning Landsvirkjunar á heildsölumarkaði tekur m.a. mið af framboði og eftirspurn og stöðu í miðlunarlónum. Verðbreytingar vegna undirliggjandi áhrifaþátta eru færðar inná viðskiptavef okkar og eiga sér stað örar en áður.

Gagnsæi í raforkuverði og virk samkeppni á raforkumarkaði eru okkar keppikefli. Landsvirkjun hefur komið til móts við breyttar þarfir í viðskiptaumhverfinu með því að þróa fyrirkomulag heildsöluviðskipta undanfarin misseri. Þannig hafa tímamörk fyrir innkaup á raforku verið afnumin, rafrænn þáttur viðskiptanna aukinn, sem og sveigjanleiki í innkaupum á grunnorku.