Brúin yfir Þjórsá líka opin hestafólki

03.06.2022Samfélag

Opnað hefur verið fyrir umferð hestafólks um brú yfir Þjórsá ofan Þjófafoss. Þar með er síðasta áfanga við byggingu brúarinnar lokið. Nýbyggð brú yfir Þjórsá tengir saman Landsveit og útivistarsvæði í Búrfellsskógi við rætur Búrfells. Með henni opnast gott aðgengi að Búrfellsskógi og er nú einungis um 500m löng leið af nýju bílastæði á austurbakka Þjórsár yfir að Búrfellsskógi.

Nú í vor hafa staðið yfir lagfæringar á leið fyrir hestafólk í gegnum athafnasvæði Búrfellsstöðva, en leiðin tengir saman reiðleiðir í Þjórsárdal og nýja göngu-, hjóla- og reiðbrú yfir Þjórsá. Leiðin liggur um Sámsstaðamúla, ofan við inntaksmannvirki Búrfellsstöðva, um gamlan vinnuveg niður Sámsstaðamúla og þaðan inn fyrir frárennslisskurð Búrfellsstöðvar II. Þaðan liggur leiðin síðan um vegslóð við rætur Búrfells að nýju brúnni rétt ofan Þjófafoss.

Leiðin sem um ræðir er blönduð leið fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi, auk þess sem að hluta er farið um slóðir og vegi sem opin eru umferð ökutækja. Mikilvægt er að vegfarendur sýni tillitssemi og varúð þannig að allir þeir sem um fara geti notið þeirrar fegurðar sem Búrfellsskógur og svæðið við rætur Búrfells hafa upp á að bjóða. Hestafólk sem hefur hug á að ríða þessa nýju leið er beðið um að kynna sér aðstæður vel áður en lagt er af stað og sýna ýtrustu varkárni þegar farið er um athafnasvæði Búrfellsstöðva þar sem mannvirki stöðvanna, svo sem djúpir vatnsvegir og brattar hlíðar, geta skapað hættu fyrir hesta og knapa.

Vegfarendum sem fara um athafnasvæði Búrfellsstöðva er bent á að í júní eru í gangi jarðvinnuframkvæmdir við frárennslisskurð Búrfellsstöðvar II. Má á því tímabili búast við einhverri umferð vörubíla og jarðvinnuvéla í nágrenni frárennslisskurðarins. Áríðandi er að vegfarendur gæti ýtrustu varúðar þegar farið er um svæðið og taki tilliti til þeirrar starfsemi sem þar er nú í gangi.