Dagrenning á mörkuðum

12.05.2021Viðskipti

Landvirkjun stóð fyrir opnum fundi um orku- og afurðamarkaði 12. maí. Hér er hægt að nálgast upptöku og frásögn af fundinum.

Góðar horfur í raforkusölu

Horfa á upptöku af fundinum

Þrýstingur frá neytendum ýtir undir að fjölmörg stórfyrirtæki, á borð við BMW, Mercedes Benz, Nestle og Apple noti ál sem framleitt er með grænni, endurnýjanlegri orku. Losun er kostnaðarsöm fyrir fyrirtæki í Evrópu og til að jafna samkeppnisstöðuna hyggst Evrópusambandið leggja losunargjöld á innflutt ál. Reiknað er með að sú ráðstöfun taki gildi árið 2023.

Þetta kom fram í máli Martin Jackson, sérfræðings greiningarfyrirtækisins CRU, á opnum fundi Landsvirkjunar um orku- og afurðamarkaði.

Kolbrún Birna Bjarnadóttir, sérfræðingur Viðskiptagreiningar, hóf fundinn með umfjöllun um raforkuverð á Norðurlöndum, en á síðasta ári var raforkuverð á Nord Pool það lægsta frá stofnun markaðarins árið 1996. Nokkrar ástæður voru fyrir þessu, t.d. var lækkun á hrávöruverði vegna áhrifa frá heimsfaraldrinum. Milt og blautt veðurfar orsakaði mikið innrennsli í lón og því var mikið framboð rafmagns frá vatnsafli. Þar að auki var mikið framboð frá vindorkuverum.

Kolbrún Birna benti á að þróun vindorku á Norðurlöndum hefur verið hraðari en uppbygging samtenginga frá þeim löndum til nágrannalanda, svo þau sátu í raun uppi með offramboð á raforku. Með tengingu við nágrannamarkaði á næstu árum mun verð raforku í löndunum hins vegar verða sambærilegt árið 2026.

Jafnvægi hefur náðst á milli framboðs og eftirspurnar og raforkuverð á norræna orkumarkaðnum er nú hærra en það var fyrir heimsfaraldurinn.

Kína setur framleiðslumörk

Í erindi sínu benti Martin Jackson á að þótt álmarkaðir hefðu tekið mjög hratt við sér á þessu ári ættu þeir þó töluvert í land að ná fyrri hæðum. Viðsnúningurinn frá síðasta ári væri ótrúlegur. Því hefði verið spáð að álverð næði 2500 dollurum á tonnið í árslok 2021, en því marki hefði þegar verið náð.

Martin sagði að miklu skipti fyrir framhaldið að Kínverjar hefðu nú sett sér ákveðin framleiðslumörk á áli og ætluðu ekki að framleiða meira en 45 milljón tonn árlega. Þetta skipti miklu máli, enda væri byggingarkostnaður álvera í Kína fjórum sinnum lægri en t.d. í Evrópu, sem hefði haft mikil áhrif á samkeppnisstöðuna hingað til. Kína hefði hins vegar lýst því yfir að draga ætti úr losun í landinu, sem bæði þýddi þessar takmarkanir á framleiðslu, auk þess sem lögð yrði meiri áhersla á endurvinnslu áls þar í landi.

Á mörkuðum skiptir sífellt meira máli hvernig álið er framleitt, að sögn Martin. Þar standa þeir framleiðendur, sem nota græna og endurnýjanlega orku líkt og hér á landi, vel að vígi. Það mun ekki síður eiga við þegar reglur Evrópusambandsins um losunargjald á innflutt ál taka gildi. Þær reglur munu ýta undir endurvinnslu og grænni framleiðslu áls í öllum framleiðsluríkjum.

Bjartir tímar fram undan

Valur Ægisson, forstöðumaður Viðskiptagreiningar og þróunar markaða, fór yfir áhrif mikilla umbreytinga síðustu missera á samkeppnishæfni raforkumarkaðarins hér á landi. Hann rifjaði upp að Landsvirkjun hefði stutt við bak viðskiptavina sinna í ölduróti síðasta árs, þegar heimshagkerfið dróst saman í fyrsta sinn frá fjármálahruninu og eftirspurn framleiðsluvöru þeirra viðskiptavina minnkaði sem leiddi til lægra verðs, auk sem verð lækkaði á alþjóðlegum orkumörkuðum.

Þá rifjaði Valur upp skýrslu þýska rannsóknarfyrirtækisins Fraunhofer fyrir stjórnvöld þar sem samkeppnishæfni raforkukostnaðar á Íslandi var metin. Megin niðurstaða skýrslunnar var að „raforkukostnaður stóriðju á Íslandi skerðir almennt ekki samkeppnishæfni hennar gagnvart samanburðarlöndunum“.

Valur benti á að styrkleiki Íslands til frambúðar liggi í sjálfbærni þeirra orkugjafa sem Ísland hafi upp á að bjóða, en kolefnisspor íslenskra álvera er með því lægsta sem gerist í heiminum. Vert sé að hafa i huga að viðmiðunarár Fraunhofer sé 2019, en samkeppnisstaða Íslands sé nú enn betri. Orkuverð á Norðurlöndunum hafi hækkað um 13% og um 43% í Þýskalandi, en á Íslandi sé það sambærilegt og það var 2019.

Allar líkur eru á að sala Landsvirkjunar í ár verði mikil, en metsala var árið 2018 þegar seldar voru 14,8 TWst raforku. Afurðaverð sé nú mjög sambærilegt því sem það var 2018 og sérvöruálag hafi margfaldast, svo hagkvæmni þess að framleiða t.d. ál í dag sé mjög mikil. „Það er því líklegt að framleiðendur muni setja verksmiðjur sínar í 5. gír og framleiða eins mikið og þeir tæknilega geta,“ sagði Valur.

Hann benti á að nú þegar væru flestir viðskiptavina Landsvirkjunar að fullnýta raforkusamninga sína. Rio Tinto væri að keyra upp framleiðslu sína eftir nýjan samning við Landsvirkjun í febrúar, kísilver PCC á Bakka væri farið í gang á ný og mikil aukning væri í eftirspurn frá gagnaverum. „Það er því ljóst að bjartir tímar eru fram undan á Íslandi og líklegt að auknar kröfur um árangur í loftslagsmálum muni skila sér í spurn eftir endurnýjanlegri íslenskri raforku,“ sagði Valur Ægisson.