Ekki á­stæða til að óttast skerðingar á raf­orku

10.06.2021Viðskipti
Tinna Traustadóttir
Tinna Traustadóttir fram­kvæmda­stjóri sölu- og þjónustu­sviðs
Lesa viðtalið við Tinnu í Fréttablaðinu

Staða miðlunar­lóna Lands­virkjunar er mjög í lægri kantinum miðað við árs­tíma. Kalt og þurrt veður í maí gerði að verkum að bráðnun íss og snjós er síðar á ferðinni en vana­lega. Ekki er á­stæða til að grípa til að­gerða að sinni, segir fram­kvæmda­stjóri hjá Lands­virkjun.

Þrátt fyrir að vatns­staða miðlunar­lóna Lands­virkjunar sé tölu­vert lægri en gert hafði verið ráð fyrir, er ekki á­stæða til þess að hafa á­hyggjur af skerðingum á fram­boði raf­orku þegar líða tekur á haustið. Þetta er mat Tinnu Trausta­dóttur, fram­kvæmda­stjóra sölu- og þjónustu­sviðs Lands­virkjunar. „Þarna erum við háð duttlungum náttúrunnar. Auð­vitað fylgjumst við með stöðunni en það eru engin hættu­merki sem kalla á að við séum að grípa til ráð­stafana, svo sem að spara vatn í lónum eða seinka við­haldi,“ segir hún.

Tíðar­far í maí var einkar kalt og þurrt, en hvort tveggja verkar til hægari bráðnunar íss og snjós á há­lendinu til fyllingar á upp­stöðu­lónum vatns­afls­virkjana Lands­virkjunar. Í Reykja­vík mældist úr­koma ná­lægt sögu­legu lág­marki og hiti í maí var 16 prósent undir lang­tíma­meðal­tölum. Hita­stig á Akur­eyri var næstum því 25 prósentum undir lang­tíma­meðal­tali maí­mánaðar. Sam­kvæmt yfir­liti Veður­stofu Ís­lands var úr­koma á landinu um 25 til 40 prósent undir lang­tíma­meðal­tali.

Dapurt inn­rennsli í vetur

„Al­mennt er staða miðlunar­forða undir meðal­lagi eftir kaldan og þurran vetur. Inn­rennsli í miðlunar­lón Lands­virkjunar hefur verið mjög slakt í vetur. Á Þjórs­ár­svæði og á Austur­landi hefur veturinn verið kaldur og mjög þurr og inn­rennsli með minnsta móti, en staðan við Blöndu hefur verið hvað skást.

Niður­dráttur miðlunar­lóna hófst upp úr miðjum októ­ber og var nokkuð ein­dreginn allan veturinn. Í lok mars og í apríl voru nokkrar leysingar á vatna­sviði Blöndu, en minna sunnan heiða. Frá byrjun maí hefur verið þurrt og kalt um allt land. Niður­dráttur í miðlunar­lónum hefur verið tals­verður og stöðugur. Með batnandi tíð má gera ráð fyrir ein­hverjum leysingum, sér­stak­lega fyrir austan,“ segir Tinna.

Að sögn Tinnu er megin­drif­kraftur vor­flóðanna sá snjór sem safnast upp á há­lendinu á veturna. Síð­sumars hefur hiti svo jafnan hækkað nægi­lega mikið til að koma ár­vissri bráðnun jökla af stað: „Þá má búast við að hlaupi kraftur í fyllinguna en jökul­bráð síð­sumars er drýgsta inn­leggið fyrir miðlunar­forða næsta vetrar. Veður­far næstu vikur mun stýra því hve­nær jöklar fara að gefa, en í venju­legu ár­ferði nær rennsli frá þeim ekki há­marki fyrr en í ágúst,“ út­skýrir hún.

Eftir­spurn að aukast

Á sama tíma og tíðar­farið or­sakar hægt inn­rennsli miðlunar­lóna Lands­virkjunar, hefur eftir­spurn við­skipta­vina fyrir­tækisins hjarnað mjög við á síðustu mánuðum eftir árið 2020, sem var einkum framan af hörmu­legt fyrir raf­orku- og hrá­vöru­fram­leið­endur. Skemmst er þess að minnast að Lands­virkjun veitti hluta stærstu við­skipta­vina sinna af­slætti á raf­orku­verði á meðan heims­markaðs­verð á áli var einna lægst. Ál­verð hefur nú hækkað um hart­nær 80 prósent frá því að það náði lág­marki sínu í apríl á síðasta ári.

Að sögn Tinnu eru við­skipta­vinir fyrir­tækisins al­mennt að full­nýta raf­orku­samninga sína og í sumum til­fellum gott betur. „Sala til gagna­vera minnkaði og lækkaði hratt á síðasta ári en er að koma sterkt til baka núna og hefur aldrei verið meiri en á fyrstu fimm mánuðum þessa árs,“

Við sjáum svo líka að kísil­ver PCC á Bakka hefur endur­ræst annan tveggja ofna og vinnur nú að undir­búningi ræsingar hins ofnsins. Okkar upp­lýsingar eru þær að Bakki verði kominn í full af­köst á þessu ári. Seinni hluta þessa árs erum við að nálgast full­selt kerfi, “ segir Tinna Trausta­dóttir.

Lesa viðtalið við Tinnu í Fréttablaðinu