Endurnýjanleg orka fyrir sjálfbært laxeldi á landi

07.07.2022Viðskipti
Halldór Ólafur Halldórsson, stjórnarformaður Landeldis og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Halldór Ólafur Halldórsson, stjórnarformaður Landeldis og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Mikilvægur áfangi náðist fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu á Íslandi þegar Landsvirkjun og Landeldi hf. undirrituðu skilmálayfirlýsingu fyrir raforkusölu til nýrrar laxeldisstöðvar Landeldis í Þorlákshöfn. Laxeldisstöðin hefur verið á teikniborðinu um nokkurn tíma, en Landeldi er íslenskt fyrirtæki sem einbeitir sér að fulleldi lax á landi. Stefnt er að því að gera rafmagnssamning samkvæmt skilmálayfirlýsingunni (e. „term sheet“) fyrir lok árs.

Á vatnstökusvæði Landeldis í Þorlákshöfn hefur fyrirtækið aðgang að ferskvatni og jarðsjó við kjörhitastig allt árið um kring. Náttúruleg hraunsíun sjávarins í gegnum ung jarðlög hreinsar sjóinn, jafnar hitann og skapar hagfelldar aðstæður fyrir laxeldisstöð í mikilli framleiðslu.

Halldór Ólafur Halldórsson, stjórnarformaður Landeldis, er ánægður með áfangann, enda er endurnýjanleg raforka lykilinn að allri sjálfbærri framleiðslu og eykur samkeppnishæfni laxaafurða félagsins. „Starfsemi Landeldis þarf mikla orku. Nýting endurnýjanlegrar orku er ein af megin undirstöðum verkefnisins og varðar tillitssemi fyrirtækisins við umhverfi og samfélag. Áherslur Landeldis hverfast um hringrásarhagkerfið, allt frá seiðaeldi til afhendingar vöru í hæsta gæðaflokki. Við leitumst við að mæta áskorunum í sjálfbærri framleiðslu matvæla og viljum leggja okkar af mörkum í baráttunni við loftslagsvána. Samstarf við Landsvirkjun er því okkur einkar mikilvægt í þessari vegferð,“ segir Halldór.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir mjög ánægjulegt að undirrita skilmálayfirlýsinguna og að stefnt sé að undirritun endanlegs rafmagnssamnings fyrir lok árs. „Hér er á ferðinni afar spennandi verkefni sem rímar vel við áherslur Landsvirkjunar þegar kemur að forgangsröðun eftirspurnar, enda er græna orkan okkar takmörkuð auðlind sem verður sífellt verðmætari og eftirspurn eftir henni er sífellt að aukast.“