Fallið frá endurkaupum

30.03.2022Viðskipti

Bætt staða í vatnsbúskap Landsvirkjunar hefur leitt til þess að fyrirtækið hefur nú fallið frá fyrri áformum um endurkaup á raforku, en það er síðasta og dýrasta úrræði fyrirtækisins til að verjast lágri stöðu miðlunarforðans. Þær skerðingar, sem nú eru í gildi, munu hins vegar halda áfram enn um sinn.

Morgunblaðið sagði frá bættri stöðu í vatnsbúskapnum í gær, sjá meðfylgjandi frétt. Þar var sagt frá því að endurkaup raforku myndu frestast enn um sinn. Nú hefur staðan hins vegar verið metin svo, að óhætt sé að falla frá áformum um endurkaup.

Þótt staðan hafi batnað verulega um síðustu helgi þá er of snemmt að fagna vorkomu. Vonandi heldur Þórisvatn áfram að fyllast með hverri rigningarskúrinni og hlýnandi veðri, en auðvitað vita Íslendingar manna best að þar er ekki á vísan að róa.

Varfærnar spár gera ráð fyrir að skerðingar standi eitthvað fram í apríl, jafnvel til enda þess mánaðar. En lengra fram í tímann spáum við ekki.