Gengið til samninga um sölu á Landsneti

24.02.2021Viðskipti

Forstjóri Landsvirkjunar ritaði í gær, 23. febrúar, undir viljayfirlýsingu fyrir hönd fyrirtækisins um að ganga til viðræðna um kaup ríkisins á hlut Landsvirkjunar í Landsneti hf. Breyting á eignarhaldi Landsnets hefur verið í bígerð um nokkurt skeið.

Landsnet annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfa. Fyrirtækið er í eigu fjögurra orkufyrirtækja, Landsvirkjunar (64,73%), RARIK (22,51%), Orkuveitu Reykjavíkur (6,78%) og Orkubús Vestfjarða (5,98%) og rituðu fulltrúar allra fyrirtækjanna undir viljayfirlýsinguna, ásamt fjármálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í desember 2018 að teknar yrðu upp viðræður um að koma eignarhaldi Landsnets hf. í beina eigu ríkisins og skipaði starfshóp til að vinna að undirbúningi málsins. Fram kemur í viljayfirlýsingunni, sem undirrituð var í dag, að aðilar málsins séu sammála um mikilvægi þess að tryggja að framsalið hafi ekki neikvæð áhrif á efnahag seljenda, kaupanda og hag Landsnets hf. Markmið samningsaðila er að ljúka málinu á þessu ári.

„Landsvirkjun telur skynsamlegt að skilja að fullu á milli eigenda flutningsfyrirtækis raforku og annarra fyrirtækja á orkumarkaði, þótt ekki sé lagakrafa um slíkt,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. „Til lengri tíma litið er ekki heppilegt að Landsnet sé í eigu þeirra fyrirtækja sem vinna raforku og dreifiveitna. Ein rökin eru þau, að sjálfstæði flutningsfyrirtækisins stuðli að jafnræði aðila á markaði. Við förum bjartsýn í þessar samningaviðræður og teljum þessa ákvörðun vera jákvætt skref fyrir áframhaldandi uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi.“