Gervifé, næturljós, boltapokar og sjampó

02.06.2020Samfélag

Landsvirkjun hefur verið einn styrktaraðila Ungra frumkvöðla undanfarin ár. Innan fyrirtækisins er rík nýsköpunarmenning og þar starfar hæfileikaríkt starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn, sem brennur fyrir að láta gott af sér leiða.

Frá vinstri: Jón Cleon, Vigdís, Þórólfur og Jóhann.
Frá vinstri: Jón Cleon, Vigdís, Þórólfur og Jóhann.

„Það er frábært að fylgjast með hugmyndaauðgi og dugnaði þessara ungu frumkvöðla. Ég bjóst satt best að segja við að Covid-19 myndi draga kjarkinn úr framhaldsskólanemum að leggja mikla vinnu í frumkvöðlaverkefni, en það var öðru nær,“ segir Þórólfur Nielsen, forstöðumaður stefnumótunar hjá Landsvirkjun. Hann var ráðgjafi Verzlunarskólanema sem hrepptu 1. sætið í árlegri Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla. Að þessu sinni tóku þátt um 600 framhaldsskólanemar í 13 skólum.

Landsvirkjun hefur verið einn styrktaraðila Ungra frumkvöðla undanfarin ár. Innan fyrirtækisins er rík nýsköpunarmenning og þar starfar hæfileikaríkt starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn, sem brennur fyrir að láta gott af sér leiða. Fjórir starfsmenn Landsvirkjunar störfuðu með Ungum frumkvöðlum að þessu sinni, hittu framhaldsskólanemendur, gáfu góð ráð og studdu þá til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Hlutabréfa„kaup“ án áhættu

Fyrirtækið Dyngja, sem stofnað var í Verzlunarskóla Íslands af þeim Alexander Sigurðarsyni, Jóni Hauki Sigurðarsyni og Magnúsi Benediktssyni, hreppti titilinn Fyrirtæki ársins 2020, auk þess að fá viðurkenningu sem besta fjármálalausnin. Dyngja er fjárfestingarapp sem leyfir notendum sínum að fjárfesta með gervipening á íslenska hlutabréfamarkaðinum. Notendur geta kynnt sér hlutabréfamarkaðinn með „fjárfestingum“ þar sem ekkert fé er í raun lagt fram, en þannig er hægt að öðlast þekkingu og reynslu án þess að hætta nokkru til. Appið getur nýst hverjum sem vill kynna sér hlutabréfamarkaðinn, hvort sem það er ungt fólk að feta sín fyrstu spor í sjálfstæðum ákvörðunum um fjármál, eða eldra fólk sem hefur e.t.v. lengi haft áhuga á að kynna sér hlutabréfamarkaðinn en vill ekki hætta sér inn á hann fyrr en grundvallarþekkingu er náð. Dyngja verður fulltrúi Íslands í Evrópukeppni ungra frumkvöðla. Kennari þeirra var Þóra Hjaltadóttir, en Þórólfur Nielsen veitti þeim ráðgjöf, eins og áður sagði.

Gömul veiðarfæri verða nytjahlutir

Jóhann Þór Jóhannsson, yfirmaður lánamála á fjármálasviði Landsvirkjunar, var leiðbeinandi hópsins frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ sem hreppti 3. verðlaun í keppninni um fyrirtæki ársins fyrir Draumaljós, næturljós fyrir börn úr endurnýttum netakúlum. Jóhann Þór segir vaxandi áherslu á það hjá ungum frumkvöðlum að finna lausnir sem vinna að bættu umhverfi. „Við höfum líklega öll gengið fjörur og séð netakúlur, sem hafa slitnað frá veiðarfærum og rekið á land,“ segir Jóhann Þór. „Þessar kúlur fá nýtt hlutverk sem milt og fallegt næturljós sem hefur beina tengingu við aldagamla sjósóknarhefð Íslendinga.“

Þriðji starfsmaður Landsvirkjunar, sem veitti framhaldsskólanemum ráðgjöf, var Jón Cleon Sigurðsson sérfræðingur á skrifstofu forstjóra. Hann starfaði með hópi í Borgarholtsskóla, sem fékk viðurkenningu fyrir „Besta sjó-bissnessinn“. Fyrirtæki þeirra heitir Hulur og framleiðir boltapoka úr fiskineti og hyggst einnig framleiða keilur úr flothylkjum. „Ég tek undir með Jóhanni Þór, að það er sífellt meiri áhersla hjá ungum frumkvöðlum að draga úr bæði mengun og sóun og gefa draslinu okkar nýtt hlutverk. Hulur nýtir net og flothylki frá sjávarútveginum til að skapa ódýran búnað fyrir fótboltaþjóðina. Það er frábær blanda.“

Sjampókubbar fyrir umhverfið

Fjórði starfsmaður Landsvirkjunar, sem studdi við hugmyndaauðgi og sköpunarkraft framhaldsskólanema í ár, var Vigdís Hauksdóttir sérfræðingur á markaðs- og viðskiptaþróunarsviði. Hún starfaði með nemendum í Kvennaskólanum, þ.á.m. hóp sem stofnaði fyrirtækið Skín. „Þetta var hugmyndaríkur og flottur hópur, sem uppskar verðlaun fyrir mestu nýsköpunina,“ segir Vigdís. „Framleiðsla Skín er sjampókubbar í föstu, þurru formi, sem koma í stað fljótandi sjampós. Þessir sjampókubbar tryggja miklu betri nýtingu sápunnar en sjampó í fljótandi formi og eru þannig mun umhverfisvænni kostur,“ segir hún.

Þórólfur, Jóhann Þór, Jón Cleon og Vigdís eru sammála um að það sé mjög gefandi og lærdómsríkt að víkja frá daglegum störfum í Landsvirkjun og fá tækifæri til þess að taka þátt í frumkvöðlastarfi framhaldsskólanema og vinna með þessu hugmyndaríka unga fólki.