Góðar horfur í upphafi vatnsárs

14.10.2022Orka

Í upphafi nýs vatnsárs sem hófst 1. október síðastliðinn voru öll miðlunarlón Landsvirkjunar full nema Þórisvatn, en staða þess var mjög lág nú í vor.

Upphafsstaða miðlunarforðans er heilt yfir með góðu móti, en ef innrennsli verður hins vegar vel undir meðallagi á árinu gæti það haft áhrif á framboð orku. Aflstaða vinnslukerfis Landsvirkjunar er tvísýn og er útlit fyrir að vinnslukerfið verði aðþrengt í afli á há-álagstímum vetrar. Því gæti þurft að takmarka framboð á ótryggðri orku ef álag verður meira en tiltækt afl vinnslukerfisins nær að anna.

Í heildina var innrennsli á nýliðnu vatnsári nokkuð undir meðallagi, en vatnsárið var algjörlega tvískipt.  Grunnvatnsstaða á Þjórsársvæðinu var í sögulegu lágmarki haustið 2021 eftir langvarandi þurrkatíð á svæðinu og haustmánuðirnir kaldir og þurrir. Niðurdráttur miðlunarlóna hófst í byrjun október og var mjög eindreginn fram í mars.  Janúar og febrúar voru snjóþungir mánuðir og innrennsli til miðlunarlóna var í lágmarki.

Landsvirkjun þurfti því að grípa til skerðinga á afhendingu orku til viðskiptavina með sveigjanlega orkusamninga til að tryggja afhendingaröryggi ef svo færi að seint voraði.  Raunin varð sú að vorið kom mjög snemma. Mikil snjóalög á hálendinu skiluðu sér vel inn í miðlunarlón og leiðréttu þannig grunnvatnsstöðu á Þjórsársvæði. Innrennsli sumarsins var síðan yfir meðallagi vestan til en jökulbráð undir meðallagi austan til. 

Staðan þetta haustið er því mun betri en síðasta haust, vatnsborð Þórisvatns hærra og grunnvatnsstaðan betri.  Niðurdráttur er ekki hafinn að marki ennþá en líklegt að hann hefjist seinni hluta október sem er þó háð tíðarfari.  Fyrirtækið mun að venju stöðugt vakta stöðu miðlunarforðans en vatn frá miðlunum stendur undir um helmingi af orkuvinnslu Landsvirkjunar yfir veturinn og fram á vor.

Hægt er að fylgjast með vatnshæð miðlunarlóna daglega á vöktunarsíðu vefs Landsvirkjunar: www.landsvirkjun.is/rannsoknirogthroun/voktun