Græn framtíð orkuvinnslu og iðnaðar

06.05.2021Orka

Við ætlum saman að taka virkan þátt í að auka það sem verður til skiptanna í samfélagi okkar. Þar liggja sameiginlegir hagsmunir allra Íslendinga.

Eftir Hörð Arnarson og Sigurð Hannesson

Lausn loftslagsmála felst aðallega í þrennu. Í fyrsta lagi að stórauka endurnýjanlega orkuvinnslu. Í öðru lagi að minnka kolefnisspor framleiðslu og þar með neyslu okkar með nýsköpun og nýjum eða breyttum framleiðsluferlum. Í þriðja lagi þarf að fanga og nýta eða farga þeirri kolefnislosun sem eftir stendur. Ótal tækifæri leynast á Íslandi til grænnar atvinnuuppbyggingar í tengslum við framangreindar lausnir, þar á meðal fullkomið orkusjálfstæði landsins.

Tækifæri okkar byggja á að við eigum þegar öflugt orkukerfi með hverfandi kolefnisspor og lítið vistspor, en landnýting í þágu vinnslu og flutnings endurnýjanlegrar orku á Íslandi er í dag áætlað um 0,4% af landinu. Sambærilegt umfang er um 1,5-2% í Noregi og Danmörku. Með þessari nýtingu hefur okkur tekist að gera bæði raforku- og hitaorkunotkun að fullu endurnýjanlega og nú vinnum við að sama árangri í samgöngum. Á þessum sama grunni flytjum við þegar út orkusæknar vörur og þjónustu með eitthvert lægsta kolefnisspor á alþjóðlegum markaði sem eru hluti af lausn loftslagsmála. Tækifæri okkar er að byggja á þessum öfluga grunni og bæta við orkukerfi okkar með áframhaldandi ábyrgri nýtingu íslenskra orkuauðlinda, ekki síst vaxandi vindorku, aukinni grænni framleiðslu í núverandi og nýjum iðngreinum og nýtingu hugvits okkar og reynslu sem getur orðið öðrum fordæmi um hvernig bæta megi efnahagslega velsæld, samfélag og umhverfi.

Þetta eru staðreyndir, ekki óljósir framtíðardraumar. En til þess að við náum að sækja tækifærin þurfum við að bera kennsl á þau og stefna saman á að þau verði að veruleika. Þar getur orkufyrirtæki þjóðarinnar, Landsvirkjun, sannarlega lagt sitt af mörkum. Samtök iðnaðarins og fjölmörg aðildarfélög þeirra leika þar sömuleiðis lykilhlutverk. Stjórnvöld verða þó að vera hér í fararbroddi, tala fyrir tækifærum, framkvæma til samræmis og ryðja hindrunum úr vegi.

Það eru sameiginlegir hagsmunir Landsvirkjunar og Samtaka iðnaðarins að benda á þau orkutengdu tækifæri sem felast í grænni framtíð. En við ætlum að gera meira: Við ætlum saman að taka virkan þátt í að auka það sem verður til skiptanna í samfélagi okkar. Þar liggja sameiginlegir hagsmunir allra Íslendinga.

Orkusjálfstæði

Við eigum óhikað að stefna að því að vera sjálfbær í orkumálum, ná fullu orkusjálfstæði. Heimurinn er nú á hraðferð inn í nýjan veruleika rafbíla, vetnisskipa og -flugvéla og annars græns samgöngumáta og við eigum alla möguleika á að vinna matvæli og fisk með því að nýta grænu orkuna okkar. Öll okkar rafrænu samskipti kalla á vinnslu og vörslu gagna í gagnaverum, sem þegar hafa risið hér og getur sá iðnaður haldið áfram að vaxa og dafna með tilheyrandi útflutningstekjum og þekkingu fyrir þjóðarbúið. Þessi græna framtíð kallar bæði á orkuvinnslu og uppbyggingu græns iðnaðar.

Ekkert af þessu gerist nema þau sem halda um stjórnvölinn séu sammála okkur um mikilvægi þess að stefna í þessa átt. Vissulega hafa mörg skref verið stigin á þeirri braut, en betur má ef duga skal. Við eigum í harðri samkeppni við önnur lönd, sem einnig bjóða græna orku. Sú samkeppni harðnar enn meira, nú þegar beislun vinds og sólar verður æ algengari um allan heim og saxar á forskotið sem orka vatnsafls og jarðvarma tryggði okkur áður.

Verum reiðubúin

Erum við reiðubúin að taka á móti þeim sem vilja byggja hér næstu gagnaver? Rafhlöðuverksmiðju til að mæta þörfum rafbílaframleiðenda? Stór gróðurhús sem tryggja ferskt grænmeti allan ársins hring? Getum við tryggt aðstöðuna, orkuna, samstarf við önnur fyrirtæki, sveitarstjórnir og aðra hagaðila?

Því miður skortir enn töluvert upp á. Landsvirkjun er reiðubúin að mæta þessari áskorun og það eru Samtök iðnaðarins og íslensk iðnfyrirtæki líka. En stjórnvöld verða að ryðja brautina, tryggja að löggjöf sé með þeim hætti að við missum ekki forskot okkar, hvort sem þar er rætt um skipulagsmál, umhverfismál, skattamál eða hvert annað atriði sem snertir rekstur fyrirtækjanna. Frumkvöðlar eru vissulega tilbúnir til að taka ýmsa áhættu og skapa grundvöll undir starfsemi sína, en það þarf að ryðja hindrunum úr vegi. Ef við getum tryggt snör viðbrögð og fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfinu eru allar líkur á að hér byggist upp enn öflugri grænn iðnaður til framtíðar.

Öll Norðurlöndin vinna hörðum höndum að því að ná þessum áhugaverðu nýju atvinnutækifærum til sín. Þar hefur náið samstarf atvinnulífs, stjórnvalda og annarra hagaðila þegar skilað miklum árangri. Samkeppnin er og verður mikil en við vitum að saman getum við náð miklum árangri.

Ísland er land endurnýjanlegrar orku og framlag okkar til loftslagsmála og sjálfbærrar þróunar er mikilvægt. Við eigum að leggjast á eitt og vernda og styrkja græna ímynd landsins. Í því felst að grípa og sækja nýju tækifærin og jafnframt halda áfram að bæta þann grunn sem fyrir er með grænni lausnum, í takt við breytta tíma.

_______________

Hörður er forstjóri Landsvirkjunar. Sigurður er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.