Græn tækifæri í gagnaversiðnaði

07.05.2021Viðskipti

Við höfum ríkt samkeppnisforskot á aðrar þjóðir á þessu sviði.

Eftir Sigríði Mogensen og Tinnu Traustadóttur

Gagnaversiðnaður er í stöðugri sókn á heimsvísu enda verða gögn sífellt mikilvægari í viðskiptum og daglegu lífi. Gagnamagn eykst á degi hverjum og tilheyrandi gagnavinnsla sömuleiðis. Mynd sem tekin er á síma fer beint í tölvuský og er aðgengileg hvar sem er og hvenær sem er. Sömuleiðis getum við nálgast tónlist og myndefni þegar okkur hentar fyrir tilstuðlan gagnavera. Aukin notkun fyrirtækja og einstaklinga á upplýsingatækni hefur stuðlað að hröðum vexti gagnaversiðnaðar og búist er við að hann haldi áfram í veldisvexti.

Um áratugur er frá því að fyrstu gagnaverin hösluðu sér völl hér á landi og bættust í hóp stórnotenda raforku. Þau eru nú fjögur talsins og hefur raforkusala til starfsemi þeirra fjórfaldast á síðastliðnum fimm árum. Raforkusala til gagnavera er þó enn aðeins lítill hluti af heildarraforkusölu til atvinnulífs. Viðskiptavinir gagnavera hér á landi starfa á fjölbreyttum sviðum, svo sem í fjármálatækni, fjarskiptum, heilbrigðistækni og bílaiðnaði. Fyrirtækin sækjast eftir reikniafli ofurtölva sem gerir þeim kleift að leysa verkefni af áður óþekktri stærðargráðu. Dæmi um verkefni sem gagnaverin vinna að eru hermanir á áhrifum lyfja og bóluefna á líkamann, loftslagsrannsóknir, árekstraprófanir og flóknir fjármálaútreikningar. Þessi starfsemi er eftirsóknarverð þar sem hún skapar mikil verðmæti og því hafa nágrannaþjóðir okkar sótt tækifæri á þessu sviði. Það ættum við einnig að gera með markvissari hætti.

Í gagnaverum á Íslandi er einnig stunduð vinnsla í tengslum við bálkakeðjur og hefur vöxturinn í gagnaversiðnaðinum hérlendis að hluta verið drifinn áfram af uppgangi rafmynta í heiminum. Rafmyntavinnsla krefst mikillar raforku og tölvubúnaðar sem er með tiltölulega skamman líftíma. Búnaðurinn úreldist á nokkrum árum og því þörf á reglulegum fjárfestingum til að viðhalda starfseminni. Þessar tíðu fjárfestingar gera það að verkum að reglulega gefst viðskiptavinum tækifæri til að endurskoða staðsetningu með tilliti til hagstæðustu raforkusamninga hverju sinni. Viðskiptavinir gagnaveranna eru margir afar kvikir og samkeppnin um þá hörð. Tilkoma gagnavera á Íslandi hefur haft bætta nýtingu raforkukerfisins í för með sér. Ísland er ákjósanleg staðsetning fyrir þennan nauðsynlega hlekk í tæknibyltingunni sem nú á sér stað. Hér á landi er aðgengi að 100% endurnýjanlegri orku, traustum nútímainnviðum og köldu loftslagi sem hentar þörfum gagnavera einkar vel. Við höfum því ríkt samkeppnisforskot á aðrar þjóðir á þessu sviði.

Nýlega tilkynntu stjórnvöld nýjan fjarskiptasæstreng til Írlands sem áætlað er að taka í notkun árið 2022. Nýr fjarskiptasæstrengur opnar á frekari tækifæri í gagnaversiðnaði, en aðrir þættir þurfa að koma til. Nágrannaríki okkar og helstu samkeppnislönd hafa markað skýra stefnu og sýn og vinna markvisst að því að sækja tækifærin í gagnaversiðnaði. Við þurfum að gera slíkt hið sama enda ríkir hörð samkeppni um uppbyggingu þessa iðnaðar á heimsvísu.

Löðum að fleiri viðskiptavini

Samtök iðnaðarins og Samtök gagnavera hafa nú í samvinnu við Íslandsstofu unnið að markaðs- og ímyndarverkefni með því markmiði að laða fleiri alþjóðlega viðskiptavini í gagnaversiðnaði til Íslands, sem og erlenda fjárfestingu í iðnaðinum. Landsvirkjun, ásamt fleiri fagaðilum, mun taka þátt í þessu verkefni og ætlum við að snúa bökum saman í að sækja tækifærin á þessu sviði. Gagnaversiðnaður skapar nú þegar mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið í formi gjaldeyristekna, kaupa á raforku, starfa, þekkingar og annarra afleiddra jákvæðra áhrifa á hagkerfið. Stjórnvöld þurfa að koma með í þessa vegferð með markvissum hætti, meðal annars með því að ryðja hindrunum úr vegi í skattkerfinu, liðka fyrir millistórum notendum í raforkukerfinu og styðja markaðssóknina með beinum hætti. Þá þarf skýran ramma um nýfjárfestingar í grænum iðnaði. Gagnaversiðnaður hér á landi er grænn og loftslagsvænn framtíðariðnaður og tækifærin eru margvísleg fyrir Ísland á þessu sviði. Við höfum ekki nýtt samkeppnisforskot okkar nægilega vel undanförnum árum en getum sótt fram með skýrri sýn, stefnu og eftirfylgni.

_______________

Sigríður er sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins. Tinna er framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Landsvirkjunar.