Gullmerki Jafnlauna­úttektar PwC í fimmta sinn

14.01.2020Fyrirtækið

Sá munur sem er á grunn- og heildarlaunum er innan þeirra marka sem PwC hefur sett varðandi góðan árangur í jöfnum launum kynja.

Hafsteinn Einarsson, ráðgjafi hjá PwC, afhenti Þórhildi A. Jónsdóttur, sérfræðingi á starfsmannasviði, gullmerkið. Á myndinni eru, frá vinstri: Sturla Jóhann Hreinsson, starfsmannastjóri, Laura Nesaule, sérfræðingur á starfsmannasviði, Hafsteinn, Þórhildur, Hörður Arnarson forstjóri og  Elín Pálsdóttir, sérfræðingur á starfsmannasviði.
Hafsteinn Einarsson, ráðgjafi hjá PwC, afhenti Þórhildi A. Jónsdóttur, sérfræðingi á starfsmannasviði, gullmerkið. Á myndinni eru, frá vinstri: Sturla Jóhann Hreinsson, starfsmannastjóri, Laura Nesaule, sérfræðingur á starfsmannasviði, Hafsteinn, Þórhildur, Hörður Arnarson forstjóri og Elín Pálsdóttir, sérfræðingur á starfsmannasviði.

Landsvirkjun hefur fengið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC í fimmta sinn, en fyrirtækið hlaut það áður árin 2013, 2015, 2017 og 2018. Þetta er því þriðja árið í röð sem fyrirtækið nær þessum áfanga.

Úttektin, sem gerð var á grundvelli launa í september, leiddi í ljós að grunnlaun kvenna innan fyrirtækisins væru 1,5% hærri en grunnlaun karla. Heildarlaun kvenna voru 1,2% hærri en heildarlaun karla.

Sá munur sem er á grunn- og heildarlaunum er innan þeirra marka sem PwC hefur sett varðandi góðan árangur í jöfnum launum kynja.

Jafnlaunaúttekt PwC styður við úttekt á jafnlaunakerfi Landsvirkjunar, í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012. Landsvirkjun fékk vottun á jafnlaunakerfi fyrirtækisins í desember 2018 og viðhaldsvottun var framkvæmd í desember 2019 sem sýndi að kerfið er virkt og hannað til þess að jafnréttis sé gætt við ákvörðun launa.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Jafnréttismál eru mikilvægur þáttur í þróun vinnustaðamenningar Landsvirkjunar, eins og fram kom í umsögn dómnefndar þegar við fengum Hvatningarverðlaun jafnréttismála á dögunum. Þessi niðurstaða úttektar PwC er einkar ánægjuleg, en fyrirtækið býr að mikilli reynslu í rekstri stjórnunarkerfa og sú reynsla styður rekstur á jafnlaunakerfi þess.“