Hærra verð til stórnotenda skilar bættri afkomu

18.11.2022Fjármál

Handbært fé frá rekstri 51 milljarður

Lesa árshlutareikning

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 241,4 milljónum USD (35 mö.kr.), en var 153,9 milljónir USD á sama tímabili árið áður og hækkar því um 56,8%.¹
  • Hagnaður tímabilsins var 213,7 milljónir USD (31 ma.kr.), en var 102,6 milljónir USD á sama tímabili árið áður.
  • Rekstrartekjur námu 497,8 milljónum USD (72,2 mö.kr.) og hækka um 100,9 milljónir USD (25,4%) frá sama tímabili árið áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 253,1 milljón USD (36,7 ma.kr.) frá áramótum og voru í lok september 1.247,7 milljónir USD  (180,9 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 351,7 milljónum USD (51 ma.kr.), sem er 47,1% hækkun frá sama tímabili árið áður.
  • Meðalverð til stórnotenda án flutnings var 42,1 USD á megavattstund, sem er hæsta verð á fyrstu níu mánuðum ársins í sögu Landsvirkjunar.

¹ Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 145.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Rekstrarniðurstaða fyrstu níu mánaða ársins var betri en nokkru sinni fyrr í sögu Landsvirkjunar. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði jókst um 57% miðað við sama tímabil í fyrra og nam rúmum 35 milljörðum króna. Þessa aukningu má einkum rekja til skýrra rekstrarmarkmiða og hækkunar á raforkuverði til stórnotenda, en hana má meðal annars rekja til endursamninga undanfarinna ára sem tryggt hafa að flestir viðskiptavinir Landsvirkjunar borga nú verð sem er sambærilegt við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.

Sjóðstreymi tímabilsins var mjög sterkt og var handbært fé frá rekstri 51 milljarður, sem skilaði sér í lækkun nettó skulda um 36,7 milljarða.

Rekstur aflstöðva gekk vel fyrstu níu mánuðina á sama tíma og raforkukerfi Landsvirkjunar var rekið nálægt hámarksafköstum. Mikið reyndi á starfsfólk, aflstöðvar og verkferla fyrirtækisins við að mæta þessari miklu eftirspurn, oft við mjög krefjandi aðstæður vegna dræms innrennslis til lóna og tíðra óveðra síðastliðinn vetur.

Fjölbreytt ný eftirspurn eftir raforku er bæði frá núverandi viðskiptavinum og áhugaverðum nýjum aðilum. Henni er því miður ekki hægt að mæta nema að takmörkuðu leyti, enda er orkukerfið fulllestað með tilliti til bæði afls og orku. Óhjákvæmilegt er að forgangsraða frekari sölu við þessar aðstæður. Á sama tíma er unnið hörðum höndum að því að afla tilskilinna leyfa fyrir frekari uppbyggingu orkuvinnslu í vatnsafli, vindorku og jarðvarma, með sérstaka áherslu á Hvammsvirkjun, Búrfellslund og stækkun Þeistareykja- og Sigöldustöðva.“

Rekstur

Lesa fréttatilkynningu á PDF

Þróun rekstrartekna

Eftirspurn eftir raforku er sterk á tímabilinu og hefur verð til stórnotenda haldist hátt í sögulegu samhengi. Verð á alþjóðlegum hrávöru- og orkumörkuðum var hátt á tímabilinu. Rekstrartekjur námu 159 m. USD á þriðja ársfjórðungi, sem er 18% hækkun miðað við sama tímabil árið áður.

EBITDA og EBITDA hlutfall

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og virðisrýrnun, EBITDA,nam 127 m. USD á þriðja ársfjórðungi, sem er 23% hærra en á sama tímabili árið áður.


Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 76 m. USD á þriðja ársfjórðungi, sem er 38% hærra en á sama tímabili árið áður.

Áhrifaþættir á hagnað fyrir óinnleysta fjármagnsliði - 9M


Nettó skuldir lækka enn

Fjármunamyndun fyrirtækisins (handbært fé frá rekstri) var um 117 m. USD á þriðja ársfjórðungi, sem er 41 m. USD hærra en á sama tímabili árið áður. Nettó skuldir (vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé fyrirtækisins) lækkuðu um 253 m. USD frá áramótum.

Nettó skuldir og eiginfjárhlutfall

Handbært fé nam 231 m. USD í lok september,sem er um 134 m. USD hækkun frá árslokum 2021.

Horfur í rekstri

Afkoma Landsvirkjunar er mjög sterk um þessar mundir sem skýrist aðallega af hækkun á raforkuverði til stórnotenda í kjölfar endursamninga undanfarinna ára.

Horfur í rekstri eru því góðar um þessar mundir, en afkoman mun áfram litast af stöðu á alþjóðlegum hrávöru- og orkumörkuðum.