Hagnaður fyrri hluta ársins 19 milljarðar króna

30.08.2022Fjármál

Endursamningar við stórnotendur skila bættri afkomu

Lesa árshlutareikning

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 165,3 milljónum USD (22,2 mö.kr.), en var 99,3 milljónir USD á sama tímabili árið áður og hækkar því um 66,5%.¹
  • Hagnaður tímabilsins var 144,5 milljónir USD (19,4 ma.kr.), en var 55,1 milljón USD á sama tímabili árið áður.
  • Rekstrartekjur námu 339,3 milljónum USD (45,5 mö.kr.) og hækka um 77,3 milljónir USD (29,5%) frá sama tímabili árið áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 147,5 milljónir USD (19,8 ma.kr.) frá áramótum og voru í júnílok 1.353,3 milljónir USD (181,3 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 234,9 milljónum USD (31,5 mö.kr.), sem er 43,6% hækkun frá sama tímabili árið áður.
  • Meðalverð til stórnotenda án flutnings var 42,1 USD á megavattstund, sem er hæsta verð á fyrri árshelmingi í sögu Landsvirkjunar.

¹ Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 134.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Rekstrarniðurstaða fyrri hluta ársins var betri en nokkru sinni fyrr í sögu Landsvirkjunar. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði hækkaði um tvo-þriðju miðað við sama tíma í fyrra og nam rúmum 22 milljörðum króna. Þessa hækkun má einkum rekja til hækkunar á raforkuverði til stórnotenda. Rekstrartekjur hafa aldrei verið hærri á hálfsárstímabili frá stofnun Landsvirkjunar og námu 45,5 milljörðum króna.

Rekstur aflstöðva gekk vel á tímabilinu. Eftir erfiðan fyrsta ársfjórðung þar sem tíð óveður og erfið staða í vatnsbúskapnum reyndu mjög á fyrirtækið kom vorið með kröftugu innrennsli og er vatnsstaðan því nú í góðu meðallagi.

Eftirspurn eftir raforku var með allra mesta móti á tímabilinu, en orkuafhending til stórnotenda jókst um 5% og jafnframt jókst afhending forgangsorku í heildsölu um 23%. Um leið var meðalverð til stórnotenda án flutnings hærra en nokkru sinni áður á fyrri árshelmingi, eða 42,1 dalur á megavattstund. Þetta má m.a. rekja til endursamninga undanfarinna ára, sem tryggt hafa að flestir viðskiptavinir Landsvirkjunar borga verð sem er sambærilegt við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.“

Rekstur

Lesa fréttatilkynningu á PDF

Þróun rekstrartekna

Mikil eftirspurn er eftir raforku ás ´>Islands

Mikil eftirspurn er eftir raforku á Íslandi og er hún í raun meiri en framboð. Rekstrartekjur námu 339 m. USD á fyrri helmingi árs, sem er 30% hækkun miðað við sama tímabil árið áður. Verð á alþjóðlegum hrávöru- og orkumörkuðum er hátt á tímabilinu.

EBITDA og EBITDA hlutfall

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og virðisrýrnun, EBITDA, nam 264 m. USD á fyrri hluta árs og hefur aldrei verið hærri. Þessi hækkun er í takti við háar rekstrartekjur.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 165 m. USD á fyrri hluta árs og endurspeglar sterkan grunnrekstur Landsvirkjunar.

Áhrifaþættir á hagnað fyrir óinnleysta fjármagnsliði


Nettó skuldir lækka enn

Fjármunamyndun fyrirtækisins (handbært fé frá rekstri) var um 235 m. USD á fyrri hluta árs, sem er 71 m. USD hærra en árið áður. Nettó skuldir (vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé fyrirtækisins) lækkuðu um 148 m. USD frá áramótum.

Nettó skuldir og eiginfjárhlutfall

Handbært fé nam 159 m. USD í lok júní, sem er um 62 m. USD hækkun frá árslokum 2021.

Horfur í rekstri

Afkoma Landsvirkjunar er mjög sterk um þessar mundir sem skýrist aðallega af hækkun á raforkuverði til stórnotenda og endurspeglar endursamninga undanfarinna ára.

Horfur í rekstri eru því góðar um þessar mundir, en afkoman mun áfram litast af stöðu á alþjóðlegum hrávöru- og orkumörkuðum.