Húsfyllir á kynningarfundi um Hvammsvirkjun

09.03.2022Hvammsvirkjun

Íbúar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fylltu félagsheimilið Árnes á kynningarfundi sem haldinn var í gær, þriðjudag, um Hvammsvirkjun.

Fundurinn var haldinn af Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem bauð Landsvirkjun að koma og kynna þær framkvæmdir sem ráðist verður í ef Hvammsvirkjun verður að veruleika.

Sigurður Loftsson fundarstjóri opnaði fundinn, en svo tók Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar til máls og fór í stuttu máli yfir aukna orkuþörf framtíðar.

Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri sviðs framkvæmda og Valur Knútsson forstöðumaður fóru yfir feril leyfisveitinga og sýndu á myndum hvar Hvammsvirkjun myndi vera, hvernig hún er hönnuð og hver áhrif hennar yrðu á umhverfið. Sýndar voru tölvugerðar myndir, sem draga fram hvernig ásýnd landsins breytist með tilkomu lóns og stíflu.

Daði V. Loftsson, vinnslustjóri á Þjórsársvæði, gaf svo ágætt yfirlit yfir þá orkuvinnslu, sem er nú þegar á svæðinu, fór yfir verklag, starfsmannafjölda, útvistun verkefna, landgræðslu, skógrækt og rannsóknir á lífríki.

Að loknum erindum komu fjölmargar fyrirspurnir úr sal, sem fulltrúar Landsvirkjunar svöruðu eftir bestu getu.

Ívar Pálsson, lögfræðingur Skeiða- og Gnúpverjahrepps, svaraði einnig fyrirspurnum sem lutu aðallega að útgáfu sveitarfélagsins á framkvæmdaleyfi, verði ráðist í virkjunina.