Tóm inntaksþró í Steingrímsstöð

14.04.2021Orka

Inntaksþróin í Steingrímsstöð í Soginu er tóm þessa dagana, enda er vatni veitt framhjá stöðinni vegna viðhalds. Vatninu úr Þingvallavatni er núna veitt í sinn gamla farveg og rennsli í honum hefur því farið úr 4 rúmmetrum á sekúndu í 120.

Á meðan Sogið beljar í gegnum gilið er unnið að 12 ára skoðun vélanna í stöðinni, auk þess sem gerðar verða endurbætur á inntaksþrónni og stöðvarhúsinu. Fyrst stöðin er stopp hvort sem er fær vélarspennir líka óskipta athygli og nýja og umhverfisvænni olíu.

Eins og alltaf þegar gripið er til þeirra ráða að stöðva vinnslu tímabundið voru allir sem málið varðar látnir vita, hvort sem það voru bændur í nágrenninu, Hafrannsóknastofnun eða veiðifélög og fengin öll tilskilin leyfi.

Steingrímsstöð tók til starfa árið 1959 og virkjar fall Efra-Sogs úr Þingvallavatni í Úlfljótsvatn. Afl stöðvarinnar nemur 27 MW. Áætlað er að vatni verði aftur hleypt á stöðina 7. júní nk.