Kreistur og kropp fyrir krakka

26.11.2021Orka
Sigrún Anna Magnúsdóttir, fjármálastjóri Sifmar, Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun og Vaka Mar Valsdóttir, framkvæmdastjóri Sifmar, undirrita hluthafasamkomulag.
Sigrún Anna Magnúsdóttir, fjármálastjóri Sifmar, Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun og Vaka Mar Valsdóttir, framkvæmdastjóri Sifmar, undirrita hluthafasamkomulag.

Græn orka og grænmeti í þágu umhverfisins

Sprotafyrirtækið Sifmar ehf., sem stofnað var snemma á þessu ári, ætlar að framleiða íslenskan barnamat. Hugmyndafræði fyrirtækisins gengur fyrst og fremst út á að nýta betur íslenskt grænmeti og ávexti og vinna það áfram með íslenskum orku- og vatnsauðlindum. Stefnt er að því að framleiða Krakkakreistur, sem verður hentugur barnamatur í pokum og Krakkakropp, barnanasl sem bráðnar í munni.

Stofnendur fyrirtækisins, Sigrún Anna Magnúsdóttir fjármálastjóri og Vaka Mar Valsdóttir framkvæmdastjóri, kynntust í námi við Háskóla Íslands í matvælafræði. Þær eru báðar mæður sem höfðu lengi furðað sig á að ekki væri framleiddur íslenskur barnamatur. Hér væri græn orka, unnin með sjálfbærum hætti, hreint vatn, framúrskarandi hráefni og hverfandi notkun varnarefna við grænmetisframleiðslu. Þær ákváðu að nýta reynslu sína úr námi til að framleiða íslenskan mat á ábyrgan hátt, með umhverfissjónarmið og hollustu í fyrirrúmi.

Stofnendurnir tóku fyrr á árinu þátt í viðskiptahraðlinum Startup Orkídea, þar sem Landsvirkjun er bakhjarl. Þar komst fljótt mynd á viðskiptagrundvöll Sifmar. Vöruþróun er nú lokið og stefnt á að fyrstu vörur komi á markaðinn í lok næsta árs. Fyrirtækið hefur hlotið ýmsa styrki, m.a. úr Nýsköpunarsjóði námsmanna, Tækniþróunarsjóði og Matvælasjóði. Þessa dagana tekur fyrirtækið þátt í markaðshraðlinum Til sjávar og sveita hjá Icelandic Startup.

Í gegnum hraðalinn Startup Orkídea, sem haldinn var til að vekja athygli á tækifærum orkutengdrar matvælaframleiðslu á Íslandi, áttu Landsvirkjun og Sifmar þess kost að hefja samstarf. Þannig hefur Landsvirkjun gerst 10% hluthafi til að styðja við félagið. „Landsvirkjun hefur nú þegar reynst okkur dýrmætur bakhjarl,“ segja Sigrún Anna og Vaka Mar, „og við hlökkum til að vaxa og starfa áfram með þau okkur við hlið.“