Landsvirkjun og Fjölbrautaskóli Suðurlands semja um samstarf

19.03.2024Samfélag

Landsvirkjun og Fjölbrautaskóli Suðurlands hafa samið um samstarf sem felur í sér að efla iðnkennslu og -nám í skólanum, sérstaklega rafvirkja- og vélvirkjanám.

Landsvirkjun og Fjölbrautaskóli Suðurlands semja um samstarf

Landsvirkjun og Fjölbrautaskóli Suðurlands hafa samið um samstarf sem felur í sér að efla iðnkennslu og -nám í skólanum, sérstaklega rafvirkja- og vélvirkjanám.

Samningurinn felur í sér fjárhagslegan stuðning frá Landsvirkjun til kaupa á tækjum fyrir raf- og vélvirkjabrautir skólans. Þessi stuðningur kemur að góðum notum enda er mikilvægt fyrir nemendur að hafa aðgang að nýjustu tækjum sem í boði eru hverju sinni.

Auk fjárhagslegs stuðnings mun Landsvirkjun bjóða nemendum í rafvirkja- og vélvirkjanámi í heimsókn í starfsstöðvar sínar og veita þeim tækifæri til að kynnast starfsemi fyrirtækisins. Þetta gefur nemendum tækifæri til að tengja nám sitt við raunverulegar aðstæður.

Þá mun Landsvirkjun einnig bjóða upp á starfsnám fyrir nemendur í sumar, en starfsnám er mikilvægur hluti þessara námsbrauta. Nemendur fá þar tækifæri til að beita þekkingu sinni og færni í raunverulegum verkefnum.

Samstarf Landsvirkjunar og Fjölbrautaskóla Suðurlands er spennandi skref í átt að eflingu iðnnáms. Margt af því frábæra starfsfólki sem vinnur hjá orkufyrirtæki þjóðarinnar er menntað í raf- og vélvirkjun og Landsvirkjun styður stolt við frekari uppbyggingu þess náms.

Jóna Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis skrifaði undir samstarfssamninginn ásamt Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurlands.