Losun á orkueiningu meðal þess lægsta sem þekkist

15.09.2022Umhverfi

Loftslagsbókhald fyrri hluta árs 2022

Hálfsársuppgjör loftslagsbókhalds

Losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar fyrri helming ársins nam um 23.700 tonnum koldíoxíð-ígilda og jókst um 12% frá sama tímabili árið áður. Kolefnisspor fyrirtækisins var um 5.900 tonn CO2-ígilda og jókst um 47% á milli ára. Losun á hverja orkueiningu var 3,3 gCO2íg/kWst sem er með því lægsta sem þekkist í raforkuvinnslu og er undir því losunarþaki sem skilgreint er í Loftslags- og umhverfisstefnu Landsvirkjunar (4 gCO2íg/kWst).

Losun vegna bruna jarðefnaeldsneytis minnkaði um 3% á milli ára en Landsvirkjun mun hætta kaupum á jarðefnaeldsneyti árið 2030 og vinnur markvisst að því að skipta út olíu og bensíni fyrir hreinorku á bifreiðum og tækjum í eigu fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri loftslagsbókhalds Landsvirkjunar. Útgáfa hálfsársuppgjörsins er liður í upplýsingagjöf um framgang loftslagsáætlunar Landsvirkjunar og hvernig miðar áfram í átt að metnaðarfullum markmiðum um kolefnishlutleysi og samdrátt í losun. Hálfsársuppgjör gefur ákveðnar vísbendingar um heildarlosun ársins, en hún er tekin saman í lok árs, rýnd og staðfest af óháðum endurskoðendum og gefin út í árlegu loftslagsbókhaldi fyrirtækisins.

Landsvirkjun verður kolefnishlutlaus 2025

Loftslagsáætlun Landsvirkjunar

Aukninguna í losun nú má að mestu leyti rekja til aukinnar raforkuvinnslu frá jarðvarmastöðvum en losun frá jarðvarma er stærsti einstaki losunarþátturinn í starfsemi Landsvirkjunar. Lág vatnsstaða í lónum vatnsaflsstöðva ásamt aukinni eftirspurn eftir raforku á fyrri hluta ársins gerði það að verkum að raforkuvinnsla frá jarðvarma var meiri en fyrri hluta ársins 2021.

Aukningin í losun mun ekki hafa áhrif á markmið Landsvirkjunar um kolefnishlutlausa starfsemi árið 2025. Ein leið að því markmiði er verkefnið Koldís, þar sem koldíoxíði frá jarðvarmastöðinni að Þeistareykjum verður skilað aftur niður í jarðhitageiminn, auk þess sem dregið verður úr losun frá Kröflu með stýringu á vinnslu þar.