Málþing sumarnema 2023
Sumarnemar Landsvirkjunar héldu málþing í Grósku hugmyndahúsi á föstudaginn, þar sem þeir deildu með starfsfólki hver störf þeirra hefðu verið í sumar og hvað þeir hefðu lært á tíma sínum hjá okkur.

Alda Ægisdóttir, sumarnemi hjá samskiptum, þreytti frumraun sína sem fundastjóri. Sumarið hjá henni fór í vefumsjón, skjölun, uppsetningu nýs vörumerkjavefs, samfélagsmiðla og kortlagningu skilta og merkinga fyrir almenning á starfsstöðvum víðsvegar um landið.

Fyrst með erindi var Berglind Pétursdóttir, sumarnemi í þróun vatnsafls. Hún vann í sumar við tíðnigreiningu flóða. Hún fjallaði um flóðagreiningu líkana og sem dæmi um mikilvægi þeirra sagði hún frá stíflu Braskereidfoss-orkuversins sem brast í Noregi nýlega. Hún skrifaði forrit til að framkvæma tíðnigreiningu og skrifaði það þannig að hægt væri að endurnýja greininguna eftir því sem tímaraðirnar lengdust, því lengri tímaröð þýddi að betri mælingar fengjust.

Næstur á svið var Guðni Þór Þórsson, sumarnemi hjá samfélagi og umhverfi. Guðni starfaði við greiningarvinnu, samantektir á styrktarumsóknum og kortlagningu á urðunarstöðum. Þar að auki kom hann að undirbúningsvinnu fyrir vinnustofur um ESRS sjálfbærnistaðla.

Julia Lee Reimer er sumarnemi hjá auðlindaeftirliti jarðvarma á Norðausturlandi. Verkefni hennar teymis er fyrst og fremst að halda utan um árlegar aflmælingar og sýnatökur. Í sumar fékk hún haldbæra reynslu af því að starfa á vettvangi, taka og rannsaka sýni og prufur og framkvæma aflmælingar.

Aðalsteinn Ásgeir Ólafsson er að ljúka sínu öðru ári sem sumarnemi hjá vatnsafli á Sogssvæði. Helstu verkefni hans hafa verið að fara yfir teikningar og merkingar á öllum vél- og rafbúnaði í aflstöðvunum þremur á svæðinu, enda af nægu að taka. Auk þess hefur hann sinnt tækni- og smíðavinnu.

Eva Björk Sverrisdóttir er einnig að ljúka sínu öðru sumri sem sumarnemi Landsvirkjunar. Hjá þróun vatnsafls hefur hún fyrst og fremst komið að vatnamælingum: grunnvatnsmælingum í borholum, rennslismælingum og innrennslisspám. Einnig kom hún að þróunarverkefni um myndgreiningu á rennsli í ám, þar sem drónar eru nýttir til að meta vatnsmagn. Þetta nýtist afar vel í erfiðum aðstæðum, til dæmis á hálendinu eða í vonskuveðrum.
Þau sem komu fram á málþinginu voru sammála um mikilvægi þess að vera sýnt traust sem nýliði í flóknu starfi. Þau sögðust hafa fengið tækifæri til að prófa sig áfram, fengið aðstoð og stuðning eftir þörfum og haft svigrúm til að gera mistök og læra af þeim.


