Ný græn auðlind

20.01.2023Viðskipti

Opinn fundur Landsvirkjunar um upprunaábyrgðir á Hilton Reykjavík Nordica 18. janúar var vel sóttur. Yfirskrift hans var „Ný græn auðlind“ enda var tilgangurinn að varpa ljósi á þau verðmæti sem felast í upprunaábyrgðum fyrir orkufyrirtæki þjóðarinnar. Ingunn Gunnarsdóttir fundarstjóri bauð rúmlega 130 gesti velkomna, en um 220 að auki fylgdust með beinu streymi á miðlum Landsvirkjunar og á Visi.is.

Upprunaábyrgðir flýta orkuskiptum

Horfa á erindi Tinnu

Tinna Traustadóttir framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu var fyrst í pontu en erindi hennar bar heitið Upprunaábyrgðir flýta orkuskiptum. Hún rakti hvernig sala upprunaábyrgða, með auknum tekjum fyrir Landsvirkjun, styður við aukna orkuvinnslu okkar og ýtir þar með undir nauðsynleg orkuskipti.

Tinna benti á að vinnsla á endurnýjanlegri orku í heiminum þyrfti að áttfaldast, samkvæmt Alþjóðaorkumálastofnuninni. Ein leiðin til að hvetja til aukinnar vinnslu á endurnýjanlegri orku felst í evrópsku kerfi upprunaábyrgða sem 28 lönd eiga aðild að. Sambærileg kerfi er þegar að finna víða um heim. Í upprunaábyrgðakerfinu jafngildir hver ein framleidd megavattstund af endurnýjanlegri orku einni upprunaábyrgð. Hugmyndafræðin er sú að fyrirtæki sem vinnur endurnýjanlega orku fái hærra verð fyrir orkuna en ella. Upprunaábyrgð er sjálfstæð vara, óháð því hvar og hvenær raforkan er afhent og heimilum og fyrirtækjum er í sjálfsvald sett hvort þau kaupa upprunaábyrgðir.

Kaupendur upprunaábyrgða hafa ýmsar ástæður fyrir ákvörðun sinni: Þeir vilja t.d. leggja baráttunni gegn loftslagsbreytingum lið eða sjá sér hag að fá vottun af markaðslegum ástæðum. Stærstur hluti upprunaábyrgðanna vegna orkuvinnslu Landsvirkjunar er seldur erlendis.

Landsvirkjun afhendir upprunaábyrgðir ekki lengur endurgjaldslaust í heildsölu. Tinna sagði að ein ástæða þess væri sú að eftir því sem verðmætið ykist og kerfið yrði meira að umfangi yxi hættan á að litið væri á slíkt sem ólögmætan ríkisstyrk.

Fjölmörg íslensk fyrirtæki kaupa upprunaábyrgðir. Tinna tók dæmi af meðalstóru iðnfyrirtæki sem greiðir um 3 milljónir á mánuði fyrir raforku. Með upprunaábyrgð bætast við 75 þúsund kr. Kostnaður meðalstórs heimilis gæti aukist um 140 kr. á mánuði.

Sívaxandi verðmæti

Horfa á erindi Halldórs Kára

Halldór Kári Sigurðarson viðskiptastjóri fjallaði í erindi sínu um sívaxandi verðmæti upprunaábyrgða. Hann benti á að þrýstingurinn kæmi í raun frá neytendum, sem vildu frekar vöru sem framleidd er með endurnýjanlegri orku.

Halldór Kári sagði að stór alþjóðleg fyrirtæki hefðu tekið höndum saman um að styðja við endurnýjanlega orkuvinnslu með kaupum á upprunaábyrgðum. Fyrirtækin, sem kalla sig einu nafni RE 100, eru nú tæplega 400 talsins. Í hópnum eru t.d. Apple, Ikea, Google, General Motors, Microsoft, Lego og Starbucks, svo örfá séu nefnd.

Framboð upprunaábyrgða í Evrópu hefur vaxið um 24% árlega á sl. 20 árum. Þrátt fyrir það er umfram eftirspurn. Á undanförnum tveimur árum hefur verð upprunaábyrgða 50 faldast, upp í 7 evrur á kílóvattstund. Tekjur Landsvirkjunar af upprunaábyrgðum fara í aukna vinnslu á grænni orku og flýta þannig fyrir orkuskiptum.

Þótt Landsvirkjun reikni með að geta haft allt að 15 milljarða tekjur af sölu upprunaábyrgða á ári þegar fram í sækir þá fellur lítill hluti þess á íslensk heimili. Þau nota aðeins 5% af endurnýjanlegri orku á Íslandi. Þeim er líka í sjálfsvald sett hvort þau kaupa upprunaábyrgðirnar, svo hugsanlega taka þau engan hluta kostnaðarins á sig.

Hvati til grænnar vinnslu

Horfa á erindi Lars Ragnars

Lars Ragnar Solberg frá AFRY management á langan feril að baki í ráðgjöf í orkumálum og starfaði árum saman hjá samtökum orkufyrirtækja í Noregi, Energy Norge.

Lars Ragnar hóf mál sitt á því að rekja sameiginlega drætti í orkuvinnslu Noregs og Íslands, sem bæði búa yfir grænni orku og hafa mikið forskot á önnur Evrópuríki í orkumálum. Noregur er hins vegar tengdur öðrum Evrópuríkjum með sæstrengjum, á meðan Ísland er orkueyja.

Hann rakti upphaflegu hugmyndina að baki kerfi upprunaábyrgða, sem var sú að tryggja ætti að framleiðendur eftirsóttrar, endurnýjanlegrar orku fengju meira fyrir sinn snúð en aðrir. Sá sem framleiðir rafmagn með t.d. kolum eða kjarnorku fær minna. Hvatinn til grænnar vinnslu er augljós.

Hann sagði ástæður þess að heimili og fyrirtæki keyptu upprunaábyrgðir jafn margar og kaupendurnir. Sumir vildu styðja við sjálfbærni, skrásetja eigin raforkunotkun með þessu evrópska regluverki, styðja við orkuskiptin, styðja við tæknilegar framfarir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum eða sæju sér hag í kaupunum til að styrkja vörur sínar á markaði.

Nauðsynlegt væri að hafa bókhaldslegt kerfi til að halda utan um sölu upprunaábyrgða, svo hægt væri að gæta þess að sama upprunaábyrgðin væri ekki seld tvisvar.

Lars Ragnar sagði að þróunin á þessu sviði væri hröð. Upprunaábyrgðir væru t.d. ekki eingöngu bundnar við raforku heldur væru einnig komnar á markað ábyrgðir sem ættu rætur að rekja til vinnslu á vetni og lífgasi.

Á fundinum voru sýnd myndbönd þar sem fulltrúar sölufyrirtækjanna Straumlindar og Orku heimilanna lýstu því hvers vegna þau kaupa upprunaábyrgðir. Þá lýstu fulltrúar Landeldis, Marels, Brimborgar og Verne Global því hvaða viðskiptahagsmunir lægju að baki ákvörðun þeirra. Þar kvað mjög við svipaðan tón; fyrirtækin eru að styðja við endurnýjanlega orkuvinnslu til að flýta orkuskiptum og bregðast við kalli neytenda um vottun á raforkunotkun þeirra.

Valkvætt kerfi

Horfa á pallborðsumræður

Að loknum erindum tóku þau Tinna Traustadóttir, Helgi Helgason framkvæmdastjóri Verne Global, Eggert Þ. Kristófersson framkvæmdastjóri Landeldis og Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi Samorku þátt í pallborði sem Ingunn Gunnarsdóttir stýrði.

Lovísa tók fyrst til máls og lagði mikla áherslu á að kerfið væri valkvætt og án landamæra, óháð afhendingu orkunnar. Enginn yrði að kaupa upprunaábyrgðir, en það væri mikilvægt fyrir alla þá sem hefðu ekki aðgang að grænni orku að geta stutt við vinnslu hennar.

Tinna ítrekaði að kerfið væri farið að sanna gildi sitt og skila auknum tekjum, sem auðveldaði meiri græna orkuvinnslu.

Helgi sagði að öll áhersla Verne Global í markaðssetningu væri á sjálfbærni og græna orku. Upprunaábyrgðirnar væru sjálfsögð staðfesting sem notendur gagnaversins kölluðu líka eftir. Þær skiptu fyrirtækið verulegu máli. Þýskur bílaframleiðandi vildi t.d. geta sýnt þeim sem kaupa af honum bíl að fyrirtækið kappkostaði að nýta endurnýjanlega orku í rekstrinum.

Eggert sagði að Landeldi væri að byggja upp fyrirtæki sem ræktaði lax og ætlaði að selja hann á erlendum markaði. Komið hefði skýrt í ljós í samræðum við viðskiptavini, t.d. stórar matvælakeðjur í Bretlandi, að mikilvægt væri að hafa vottun á grænu orkunni. Viðskiptavinir fyrirtækisins væru vissulega meðvitaðir um að Ísland uppfyllti allar kröfur um græna orkuvinnslu, en vottun þess þyrfti að liggja fyrir. Hann kvaðst sannfærður um að með auknum skilningi á þessu kerfi myndi almennur stuðningur við það vaxa.

Lovísa sagði ástæðu til að benda á að sala á upprunaábyrgðum hefði engin áhrif á skuldbindingar okkar eða annarra í loftslagsmálum, en nokkurs misskilnings virtist gæta þar um í innsendum spurningum sem bárust pallborði. Vottun á allri virðiskeðju fyrirtækja yrði hins vegar sífellt algengari. Hvers vegna ætti það ekki að eiga líka við um orkuna okkar?