Óbreytt verð grunnorku á heildsölumarkaði 2023

03.11.2022Viðskipti

Niðurstöður úr nýju sölufyrirkomulagi liggja fyrir

Nánar um breytt söluferli raforku á heildsölumarkaði

Niðurstöður úr nýju sölufyrirkomulagi á grunnorku á heildsölumarkaði liggja nú fyrir.

Söluverð grunnorku í nýjum samningum á heildsölumarkaði verður óbreytt á næsta ári, eða 5.371 kr/MWst, þrátt fyrir almenna hækkun verðlags í samfélaginu um þessar mundir. Þetta er niðurstaða söluferlis grunnorku á heildsölumarkaði sem lauk á dögunum. Grunnorka felur í sér kaup á sama magni forgangsorku (MWst) allar klukkustundir sólarhringsins allt árið.

Söluferlið var nú með breyttu sniði, en nýtt fyrirkomulag gefur upplýsingar um eftirspurn og er mikilvægt innlegg til þróunar markaðsfyrirkomulags, orkuöryggis og orkuverðs. Sölufyrirtækjum sem eiga í heildsöluviðskiptum við Landsvirkjun og Landsneti var boðin þátttaka og stóð til boða að senda inn kauptilboð í árslanga grunnorkusamninga til afhendingar á árunum 2023-2027. Einstök kauptilboð voru ónafngreind og sá fyrirtækið Vonarskarð um söluferlið. Skilafrestur tilboða rann út föstudaginn 28. október.

Niðurstaða söluferlisins er að markaðsverð grunnorku fyrir árið 2023 er 5.371 kr/MWst, sem er jafnframt sama verð og sölufyrirtækjum sem eiga í heildsöluviðskiptum við Landsvirkjun stóð til boða að kaupa grunnorku á viðskiptavef Landsvirkjunar fyrr á þessu ári. Söluverð grunnorku í nýjum samningum verður því sem fyrr segir hið sama á árinu 2023 og á árinu 2022 og lækkar því að raunvirði á milli ára. Næstu tvær vikurnar mun að auki standa til boða að kaupa grunnorku fyrir árið 2023 á fyrrnefndu markaðsverði, 5.371 kr/MWst, á viðskiptavef Landsvirkjunar.

Mikil eftirspurn eftir grunnorku

Mikil eftirspurn var eftir grunnorku árin 2024-2027, eða um 40-50 MW á ári. Kauptilboð voru samþykkt fyrir 7-11 MW á ári á markaðsverðinu 5.967-6.780 kr/MWst.

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá nánari upplýsingar um niðurstöður söluferlisins. Öll verð eru á nafnverði:

Raforkuverð hefur hækkað mikið á hinum Norðurlöndunum á þessu ári og er framvirkt verð enn hátt í sögulegu samhengi. Framvirkt verð fyrir 2023 er um þessar mundir nærri 18.000 kr/MWst og um 10.000 kr/MWst fyrir 2024-2026.

Markaðsverð út frá niðurstöðum söluferlisins er því mun lægra en þekkist í nálægum löndum.