Öflugt sumarstarfsfólk hjá Landsvirkjun

03.07.2023Fyrirtækið

Sumarið er komið og hjá okkur í Landsvirkjun fylgir því alltaf mikil eftirvænting að fá sumarstarfsfólkið til starfa. Í sumar eru 161 háskólanemar og ungmenni í sumarstörfum hjá Landsvirkjun.

Þeir sumarnemar sem hafa viðveru í Grósku starfa hjá Samskiptum, Viðskiptaþjónustu,  Fjárstýringu og Framkvæmdum. Á myndinni eru, frá vinstri: Inga Laufey Ágústsdóttir, Ylfa Margrét Ólafsdóttir, Þorsteinn Björn Guðmundsson, Alda Ægisdóttir. Fremst á myndinni eru Elín Ásta Pálsdóttir, Ásdís Vignisdóttir og  Karen Líf Gunnarsdóttir
Þeir sumarnemar sem hafa viðveru í Grósku starfa hjá Samskiptum, Viðskiptaþjónustu, Fjárstýringu og Framkvæmdum. Á myndinni eru, frá vinstri: Inga Laufey Ágústsdóttir, Ylfa Margrét Ólafsdóttir, Þorsteinn Björn Guðmundsson, Alda Ægisdóttir. Fremst á myndinni eru Elín Ásta Pálsdóttir, Ásdís Vignisdóttir og Karen Líf Gunnarsdóttir

Mikilvægir starfskraftar

Sumarið er komið og hjá okkur í Landsvirkjun fylgir því alltaf mikil eftirvænting að fá sumarstarfsfólkið til starfa. Það er mikilvægt að fá fólk inn yfir sumartímann en einnig afskaplega hollt fyrir okkur að fá ný, fersk augu á okkar störf og ferla.

Sumarstörfin hjá okkur eru fjölbreytt. Við hverja aflstöð sinna ungmenni hefðbundnu starfi vinnuskóla og svo eru háskólanemar sem koma inn og fá hagnýta reynslu af störfum hjá Framkvæmdasviði, Sölu og þjónustu, Fjárstýringu, deild Umbóta og öryggis og Samskiptadeild svo fátt eitt sé nefnt.

Við höfum verið afskaplega lánsöm með sumarnema og mörg hafa endað sem starfsfólk í fullu starfi eftir að hafa byrjað sinn starfsferil hjá okkur sem nemar.

Fjölbreyttur hópur og verkefni

Í ár sóttu 606 háskólanemar og ungmenni um 161 sumarstörf víðsvegar um landið.

Dæmi um nám sem sumarfólkið okkar leggur stund á er vélaverkfræði, vélfræði, vélvirkjun, rafmagns- og tölvuverkfræði, verkfræði, landafræði, jarðfræði, jarðeðlisfræði, lögfræði, sálfræði og hagfræði.

Sumarnemar Landsvirkjunar í ár eru 49,7% konur og 50,3% karlar.