Orkuskipti í flugi gætu hafist á þessum áratug

13.10.2022Orka
Pallborðsumræður f.v.: Ásdís Ýr Pétursdóttir, fundarstjóri, Haraldur Hallgrímsson frá Landsvirkjun, Heiða Njóla Guðbrandsdóttir frá Icelandair, Sigrún Jakobsdóttir frá Isavia og Rod Williams frá Universal Hydrogen.
Pallborðsumræður f.v.: Ásdís Ýr Pétursdóttir, fundarstjóri, Haraldur Hallgrímsson frá Landsvirkjun, Heiða Njóla Guðbrandsdóttir frá Icelandair, Sigrún Jakobsdóttir frá Isavia og Rod Williams frá Universal Hydrogen.

Opinn fundur um orkuskipti í flugi

Horfðu á upptöku af fundinum

Icelandair, Isavia, Landsvirkjun og Samtök ferðaþjónustunnar héldu opinn fund fimmtudaginn 12. október um orkuskipti í flugi í tengslum við þing Hringborðs Norðurslóða sem nú stendur yfir í Hörpu.

Á fundinum var farið yfir stöðuna í orkuskiptum á breiðum grundvelli, frá sjónarhóli flugvélaframleiðenda, flugfélaga, flugvallarekenda og orkuframleiðenda. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flutti opnunarávarp og ræddi meðal annars um mikilvægi loftslagsmarkmiða og nauðsyn þess að stjórnvöld og einkaaðilar ynnu saman að því að ná þeim. Fundurinn fór fram á Reykjavik Edition hótelinu og fundarstjóri var Ásdís Ýr Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta og sjálfbærni hjá Icelandair og stjórnarmaður hjá SAF.

Sprotafyrirtækið Universal Hydrogen lýsti áformum sínum um vetnisvæðingu flugvéla sambærilegra þeim sem notaðar eru í innanlandsflug á Íslandi. Fyrirtækið hefur metnaðarfullar áætlanir og telur að flug á stuttum flugleiðum gæti gengið fyrir grænu vetni á þessum áratug. Þar sé Íslandi í góðri stöðu vegna stuttra flugleiða innanlands og aðgangs að umhverfisvænni orku.

Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus fór yfir framtíðaráætlanir félagsins um samdrátt á útblæstri á lengri flugleiðum og markmið sín um að koma á markaðinn flugvél sem gengur fyrir hreinum orkugjöfum fyrir árið 2035. Airbus hefur minnkað útblástur flugvéla sinna umtalsvert undanfarið en vinnur einnig að þróun og tilraunum varðandi sjálfbært flugvélaeldsneyti, vetni og rafmagn.

Icelandair, Isavia og Landsvirkjun lýstu sínum markmiðum og fóru yfir mikilvægi samstarfs á milli flugfélaga, flugvallarekenda og orkufyrirtækja svo orkuskiptin verði að veruleika sem fyrst.

Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun:

„Ísland er í einstakri stöðu þegar kemur að því að klára orkuskiptin. Íslendingar hafa þegar gengið í gegnum umbreytingar á hita- og raforkukerfinu sem aðrar þjóðir standa nú frammi fyrir. Skuldbindingar Íslands til ársins 2030 samkvæmt Parísarsamkomulaginu eru skýrar og sömuleiðis markmið ríkisstjórnarinnar fyrir 2040. Íslendingar verða að skipta út jarðefnaeldsneyti í samgöngum.

Mikil tækifæri eru til orkuskipta í flugi og hefur tækniþróun síðustu ára sýnt að orkuskiptin eru nær í tíma en upphaflega var gert ráð fyrir, bæði í flugvélum og á flugvöllum. Mikil vinna er framundan og teljum við hjá Landsvirkjun að samráð og samstarf séu lykillinn að því að byggja upp þá aðfangakeðju sem þarf fyrir nýja orkugjafa í samgöngum á Íslandi.“