Óskum viðræðna um endurkaup

19.01.2024Orka

Landsvirkjun hefur sent stórnotendum á suðvesturhluta landsins ósk um viðræður um hvort orkufyrirtækið geti keypt raforku til baka af þessum viðskiptavinum sínum. Slík endurkaup eru síðasta og dýrasta úrræði Landsvirkjunar til að verjast lágri stöðu miðlunarforðans.

Eins og skýrt var frá fyrir mánuði tilkynnti Landsvirkjun stórviðskiptavinum sínum að skerða þyrfti orku til starfsemi þeirra. Þær skerðingar hefjast í dag, 19. janúar og gert er ráð fyrir að þær geti staðið allt til 30. apríl. Það fer þó eftir vatnsbúskapnum á tímabilinu. Áður hafði verið gripið til takmörkunar á víkjandi orku til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana, auk gagnavera sem stunda rafmyntagröft. Innrennsli til miðlana og aflstöðva Landsvirkjunar er enn í lágmarki.

Nú hefur Landsvirkjun sent bréf á stórnotendur syðra og óskað eftir viðræðum um hvort fyrirtækin sjái sér fært að draga saman í starfsemi sinni um tíma og endurselja Landsvirkjun raforku. Öll þessi fyrirtæki nýta raforkusamninga sína vel og langt umfram þá kaupskyldu sem kveðið er á um í samningum þeirra, en Landsvirkjun vill kanna hvort þau hafi svigrúm til að nýta minni orku á næstunni.

Áður hefur verið leitað til stórnotenda um möguleg endurkaup á raforku. Í skerðingum árið 2022 kom í ljós að verðið sem fyrirtækin vildu fá fyrir raforkuna var margfalt samingsverð og ekki varð af viðskiptunum þá.