Sjálfskaparvíti í orkumálum
Hvernig stendur á því að aðstæður eru svona krefjandi á íslenskum orkumarkaði núna? Þótt utanaðkomandi áhrif séu mikil, þá getum við fyrst og fremst kennt okkur sjálfum um. Þegar Covid-faraldurinn gekk yfir dró úr eftirspurn eftir raforku og framboð var meira en hægt var að selja.
Eftir innrás Rússa í Úkraínu snerist dæmið við og raforkuverð í Evrópu fór í hæstu hæðir. Þá snarjókst eftirspurnin hérlendis, stórnotendur fullnýttu sína samninga og vildu bæta við á sama tíma og ný fyrirtæki vildu gjarnan komast að.
Því hamra ég enn og aftur á sömu ráðum, eins og Kató gamli: Það verður að grípa til aðgerða til að tryggja orkuöryggi heimila og almennra fyrirtækja. Það verður líka að útvega orku til að mæta orkuskiptum á landi og sjó. Og við verðum að vera í stakk búin til að selja raforku til vænlegra fyrirtækja, jafnt nýrra sem þegar starfandi. Þetta er lykillinn að farsælli þróun samfélagsins.