Skerðing til fiskimjölsverksmiðja, gagnavera og álvera

06.12.2021Viðskipti

Landsvirkjun hefur ákveðið að skerðing á afhendingu raforku til fiskimjölsverksmiðja taki strax gildi, en ekki í janúar eins og ætlað hafði verið.

Skerðingin nær ekki eingöngu til verksmiðjanna, heldur einnig til stórnotenda með skerðanlega skammtímasamninga, t.d. gagnavera og álvera. Þau eiga það sammerkt með fiskimjölsverksmiðjum að hafa samið um skerðanlega orku að hluta. Þar að auki hefur Landsvirkjun hafnað öllum óskum nýrra viðskiptavina um orkukaup vegna rafmynta.

Nokkrar ástæður eru fyrir því að skerðingin kemur fyrr til framkvæmda en áætlað hefur verið. Þannig kemur t.d. raforkuvinnsla hjá öðrum framleiðanda, sem átti að koma inn í vikunni, ekki inn í kerfið fyrr en í lok næstu viku. Þá nægir full keyrsla í Vatnsfelli ekki til að halda uppi orkuframleiðslu á Þjórsársvæði. Krókslón hefur lækkað það mikið að byrjað var að hleypa vatni framhjá Vatnsfelli í dag til að stöðva lækkun, en einnig verður að draga úr orkusölu til að draga úr vinnslu. Loks má nefna, að bilun kom upp í vél í Búrfelli og fyrirséð að hún kemur ekki í rekstur fyrr en með vorinu.

Flutningskerfið flöskuháls

Landsvirkjun hefur fullnýtt getu flutningskerfisins til að flytja orku frá Norðausturlandi til álagspunkta á Suðvesturlandi, en flutningskerfið ræður ekki við að flytja alla þá orku sem hægt væri að færa milli landshluta. Hinn 23. ágúst sl. fylltist Hálslón á Kárahnjúkum og þremur dögum síðar nam afl yfirfallsins um 2000 MW. Á 10 dögum rann því framhjá orka, sem samsvarar heilsárnotkun allra bræðslna á landinu, þegar vertíð er góð. Með sterkara flutningskerfi hefði mátt nýta stóran hluta þeirrar orku sem rann fram hjá. Áætla má að takmarkanir í flutningskerfinu dragi úr vinnslugetu kerfisins sem nemur allt að 500 GWh. Að loknu sumri með jafn ójafnri dreifingu góðviðrisdaga og raun bar vitni koma áhrifin fram með sérstaklega sterkum hætti.