Stefanía til Eyris

17.09.2020Fyrirtækið

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, sem hefur tilkynnt að hún muni láta af störfum sem framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, hefur verið ráðin til Eyrir Venture Management til þess að leiða nýjan vísisjóð sem Eyrir er að hleypa af stokkunum, Eyrir Sprotar II.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, sem hefur tilkynnt að hún muni láta af störfum sem framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, hefur verið ráðin til Eyrir Venture Management til þess að leiða nýjan vísisjóð sem Eyrir er að hleypa af stokkunum, Eyrir Sprotar II.

Eyrir Venture Management ehf. hefur að undanförnu unnið að því að setja þennan nýja vísisjóð, Eyrir Sprotar II, á laggirnar. Sjóðurinn mun sérhæfa sig í að styðja við uppbyggingarferli íslenskra sprotafyrirtækja.

„Ég er afskaplega þakklát fyrir árin mín hjá Landsvirkjun, þar sem ég hef tekist á við mörg spennandi verkefni með öllu því góða fólki sem þar er. Núna bauðst mér að einbeita mér að því að efla og vinna að framgangi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á Íslandi, sem framkvæmdastjóri Eyris Sprota II. Ég er mjög spennt fyrir því verkefni.“

Áður en Stefanía kom til starfa hjá Landsvirkjun starfaði hún hjá CCP Games í átta ár, síðast sem framkvæmdastjóri CCP á Íslandi og þar áður sem yfirþróunarstjóri CCP í Shanghai í Kína og þróunarstjóri á Íslandi. Áður hafði Stefanía unnið sem yfirverkefnisstjóri í upplýsingatækni hjá Orkustofnun og sem ráðgjafi í viðskiptagreind og vöruhúsalausnum. Stefanía hefur einnig reynslu af nýsköpunarfyrirtækjum í gegnum stjórnarsetu.

Við hjá Landsvirkjun óskum Stefaníu velfarnaðar í nýju starfi og þökkum fyrir ánægjuleg ár saman.