Stórnotendum heimilt að selja inn á kerfið

08.02.2024Viðskipti

Landsvirkjun hefur tilkynnt stórnotendum sínum að þeim sé frjálst að endurselja forgangsraforku vegna þröngrar stöðu í raforkukerfinu, kjósi þeir að gera það. Undanfarið hefur Landsvirkjun þurft að grípa til skerðinga hjá stórnotendum vegna þurrkatíðar sem leitt hefur til dræms innrennslis í miðlunarlón og lágrar lónstöðu.

Í flestum samningum Landsvirkjunar við stórnotendur er kveðið á um að þeim sé ekki heimilt að selja orku frá sér aftur inn á kerfið. Vegna erfiðrar stöðu raforkukerfisins, sem enn hefur þyngst með náttúruhamförunum á Reykjanesi hefur Landsvirkjun ákveðið að falla frá þessu ákvæði fram til loka apríl, á fyrirsjáanlegu tímabili raforkuskerðinga.

Landsvirkjun sendi 19. janúar sl. stórnotendum á suðvesturhluta landsins ósk um viðræður um hvort orkufyrirtækið gæti keypt raforku til baka en áhugi var takmarkaður og ekki varð af viðskiptum.