Þörf á aukinni orkuvinnslu

10.03.2023Fyrirtækið

Vel heppnaður ársfundur

Horfa á upptöku af ársfundi

Ársfundur Landsvirkjunar árið 2023 fór fram í Silfurbergi í Hörpu þriðjudaginn 7. mars kl. 14. Yfirskrift fundarins var Grunnur grænna samfélags.

Um 350 manns mættu til fundar og mikill fjöldi fylgdist með í streymi. Ræðumönnum varð tíðrætt um að vinna þyrfti aukna græna orku, bæði til almennrar notkunar samfélagsins og vegna fyrirsjáanlegra orkuskipta.

Stjórnvöld þurfa að leggja fram skýra stefnu, leyfisveitingaferli að vera skilvirkt án þess að nokkur afsláttur sé gefinn af góðri umgengni um náttúruna, huga þarf að því að nærsamfélög aflstöðva njóti góðs af auðlindinni í auknum mæli og tryggja þarf orkuöryggi heimila í þeirri miklu eftirspurn sem er eftir orkunni.

Mikilvægt að afla frekari orku

Bjarni Benediktsson
Horfa á ávarp Bjarna

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og fulltrúi eigenda Landsvirkjunar, sagði síðastliðið ár viðburðaríkt í orkumálum vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Efnahagslíf fjölda ríkja hefði verið sett úr skorðum, en orkuöryggi hefði brunnið heitast á almenningi.

Íslendingar stæðu í mikilli þakkarskuld við þá einstaklinga sem fyrstir lögðu grunn að orkukerfi okkar. Þar nefndi ráðherra sérstaklega til sögunnar Jóhannes Nordal, fyrsta stjórnarformann Landsvirkjunar.

Bjarni sagði þjóðina hafa tækifæri til að skapa enn betri framtíð fyrir komandi kynslóðir, skapa grænna samfélag og vinna að metnaðarfullum markmiðum í orkuskiptum. Við þyrftum að sækja meiri orku enda ekki ásættanlegt að Landsvirkjun þyrfti að neita mörgum góðum verkefnum sem myndu stuðla að grænna samfélagi. Vindorka væri ein leið til að afla orku. Þar væru margar þjóðar langt komnar og við gætum nýtt okkur reynslu þeirra.

Ráðherra lagði áherslu á að ríkið hefði mikilvægu hlutverki að gegna við stefnumótum í orkumálum. Í hverju skrefi þyrfti að horfa til framtíðar.

Í lok ávarps síns nefndi ráðherra sérstaklega afar góða afkomu Landsvirkjunar á síðasta ári, hækkandi verð til stórnotenda, hraða skuldalækkun á síðustu árum og verulegar arðgreiðslur sem væru gríðarlega mikilvægar. Árangurinn gæfi tilefni til að óska stjórnendum og starfsfólki til hamingju með árangurinn.

Hvatti stjórnmálafólk til dáða

Jónas Þór Guðmundsson
Horfa á ávarp Jónasar

Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður Landsvirkjunar rakti góðan árangur fyrirtækisins og sagði hann ekki tilviljun. Hann mætti annars vegar rekja til fjárfestinga í virkjunum í gegnum tíðina og hins vegar til endursamninga við flesta stærstu viðskiptavini Landsvirkjunar á síðustu 12 árum.

Hann nefndi einnig að orkuvinnsla væri atvinnugrein framtíðarinnar, þar sem þolinmæði og langtímahugsun væri dyggð. Virkjun byrjaði að öllu jöfnu ekki að skila tekjum fyrr en 15-20 árum eftir að framkvæmdir hæfust.

Jónas Þór nefndi sérstaklega þá þakkarskuld sem Landsvirkjun og þar með þjóðin öll stæði í við Jóhannes heitinn Nordal, einn af helstu frumkvöðlum í orkumálum þjóðarinnar.

Þá sagði hann að blikur væru á lofti í orkumálum þjóðarinnar. Eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku hefði aldrei verið meiri og Landsvirkjun þurft að hafna mörgum áhugaverðum og umhverfisvænum verkefnum, þegar falast hefði verið eftir raforkusamningum. Orkan væri einfaldlega ekki til. Ef við ætluðum að eiga von um að ná markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum þyrfti mun meiri aflaukningu í kerfinu en nú væri í pípunum miðað við stöðuna í rammaáætlun og leyfisveitingarmálum.

Ástæða væri til að hvetja stjórnmálafólk til dáða. Þörf væri á þverpólitískri samstöðu um að hugsa til framtíðar, hafa hag þjóðarinnar í fyrirrúmi og leggja til hliðar þá flokkadrætti sem löngum hafi einkennt hið pólitíska litróf í þessum málum.

Óhjákvæmileg forgangsröðun

Hörður Arnarson
Horfa á erindi Harðar

Hörður Arnarson forstjóri sagði að Landsvirkjun hefði sett þau markmið árið 2010 að hækka verð til stórnotenda, tryggja fjölbreyttari tekjustofna og lækka skuldir. Þetta hefði tekist.

Raforkukerfið væri hins vegar uppselt og ástæða til að hafa áhyggjur af orkuöryggi fyrir heimili og smærri fyrirtæki. Þar væri nauðsynlegt að bregðast við hið fyrsta.

Hörður sagði að næstu verkefni Landsvirkjunar væru Hvammsvirkjun, vindmyllulundur við Búrfell, stækkun Þeistareykjavirkjunar og aflaukning í Sigöldu.

Undirbúningur virkjana og bygging væru tímafrek, um 10-15 ár. Um 3-4 ár væru þar til næstu virkjanir tækju til starfa og ekki seinna vænna að huga strax að næstu verkefnum.

Kerfið væri núna fullselt, sem væri í sjálfu sér eftirsóknarverð staða, en óhjákvæmilega kallaði þetta á forgangsröðun.

Þar hlytu heimili og smærri fyrirtæki að vera fremst í röðinni.

Endursamningar skiluðu 150 milljörðum

Rafnar Lárusson
Horfa á erindi Rafnars

Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni, rakti batnandi hag Landsvirkjunar, sem hefur aldrei staðið jafn styrkum fótum. Hann fór yfir ört lækkandi skuldastöðu frá 2010, á sama tíma og endursamið var við stærstu viðskiptavini. Um leið þurfti að fjármagna nýjar virkjanir.

Á þessu tímabili hafa tekjurnar tvöfaldast og þá hækkun má fyrst og fremst rekja til endursamninganna. Ábati af nýjum samningum frá 2010 nemi um 150 milljörðum króna umfram það sem eldri samningar hefðu skilað.

Hagnaðurinn hefur aukist í samræmi við tekjur og 2022 var annað árið í röð sem met var slegið. Engin ný lán hafa verið tekin með ríkisábyrgð og eldri lán með slíkri ábyrgð eru að hverfa úr bókunum.

Á sama tíma og skuldir voru lækkaðar var ráðist í nýjar virkjanir, Búðarhálsstöð, Búrfell II og Þeistareykjastöð, auk þess sem tvær tilraunavindmyllur voru teknar í notkun á Hafinu.

Í ár greiðir Landsvirkjun 20 milljarða kr. í arð til ríkisins. Þar við bætast 30 milljarða tekjuskattsgreiðslur og skattur af hagnaði vegna sölu Landsnets til ríkisins. Alls renna því 50 milljarðar í ríkissjóð, sem jafngildir rúmlega helmingi byggingarkostnaðar nýs Landspítala. Og nemur 5% af heildartekjum íslenska ríkisins í ár.

Frá 2010 hefur lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar færst úr spákaupmennskuflokki í BBB+ og fyrirtækið stendur því jafnfætis stærstu orkufyrirtækjum Svía og Dana og feti framar en Finnar. Aðeins Norðmenn eru þar framar.

650 km af vegum og slóðum

Kristín Linda Árnadóttir
Horfa á erindi Kristínar

Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri fór yfir hvernig Landsvirkjun hefur tekist að vera góður granni á starfssvæðum sínum og hvaða áform eru uppi. Hún sagði fyrirtækið hafa að leiðarljósi að nærsamfélag aflstöðva nyti ávinnings af starfseminni, lögð væri áhersla á að styðja við málefni og verkefni sem hefðu jákvæð samfélagsáhrif, einnig á uppbyggileg samskipti og samvinnu og um leið vildi Landsvirkjun stuðla að orkutengdri nýsköpun og vera leiðandi afl í samfélaginu.

Landsvirkjun væri víða stærsti skattgreiðandi sveitarfélaga þar sem aflstöðvar fyrirtækisins væru, starfaði með nærsamfélaginu að t.d. brunavörnum og kæmi að mörgum skemmtilegum verkefnum eins og Eimi á Norðurlandi, Orkídeu á Suðurlandi, Bláma á Vestfjörðum og Eygló á Austurlandi.

Kristín Linda sagði að Landsvirkjun hefði víða komið að uppbyggingu innviða og tók sem dæmi vegagerð. Á undanförnum 60 árum hefði Landsvirkjun lagt um 650 km af vegum og slóðum. Sú vegalengd jafngildir hálfum hringveginum, eða akstri frá Reykjavík norðurleiðina til Egilsstaða.

Þá rakti Kristín Linda niðurstöður kannana sem Gallup vann fyrir Landsvirkjun. Þar kemur fram að rúmlega 76% landsmanna telja virkjanir Landsvirkjunar hafa haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og 63% segjast hlynnt frekari virkjanaframkvæmdum. Kristín Linda sagði þetta gríðarlega mikilvægar upplýsingar fyrir orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar.

Þegar fólk sem býr í nærsamfélagi virkjana er spurt er ánægjan enn meiri. Þar eru 78-85% aðspurðra á því að virkjanirnar hafi haft jákvæð áhrif á nærsamfélagið.

Erlendir ferðamenn eru mjög sáttir við græna orkuvinnslu á Íslandi. 96% höfðu orðið vör við orkuvinnslu á ferðum sínum um landið og sama hlutfall segist jákvætt. Þrír af hverjum fjórum sögðu orkuvinnsluna hafa haft jákvæð áhrif á upplifun sína af íslenskri náttúru. Kristín Linda sagði niðurstöðurnar sýna skýrt að ferðaþjónusta og orkuvinnsla ættu ágæta samleið.

Að lokum lagði aðstoðarforstjórinn áherslu á að nærsamfélög þyrftu að njóta afraksturs orkuvinnslu heima í héraði í auknum mæli.

Tryggja þarf orkuöryggi heimila

Tinna Traustadóttir
Horfa á erindi Tinnu

Tinna Traustadóttir framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu sagði ástæðu til að fagna því sérstaklega að raforkuöryggi fyrir almenning væri loksins komið á dagskrá, með vinnu að laga- og reglugerðarbreytingum. Landsvirkjun hefði lengi talað fyrir mikilvægi þess að koma heimilum og minni fyrirtækjum í var hvað raforkuöryggi áhrærir. Stórnotendur væru þegar búnir að tryggja sinn hag í langtímasamningum.

Landsvirkjun getur ekki ein tryggt raforkuöryggi, sagði Tinna. Orkufyrirtæki og stjórnvöld þyrftu að snúa bökum saman og koma raforkuöryggi í viðunandi horf. Þar til bærar stofnanir og yfirvöld þyrftu að hafa yfirsýn yfir stöðu mála, en nú hefði enginn þá yfirsýn eða gæti svarað því að hve miklu leyti raforkuöryggi almennings hefði verið tryggt. Fyrirsjáanleiki á stækkandi markaði væri nauðsyn.

Tinna sagði hlutdeild Landsvirkjunar á heildsölumarkaði um 50%. Þar væru gerðir samningar við sölufyrirtæki til einhverra ára sem seldu orkuna áfram til heimila og smærri fyrirtækja. Þar væri fyrirsjáanleiki.

Hinn helmingur orkunnar á heildsölumarkaði kæmi frá sölufyrirtækjum sem hefðu yfir eigin raforkuvinnslu að ráða. Þar væri ekkert sem segði að orkan þeirra myndi rata áfram í sama mæli til heimila og smærri fyrirtækja. Þau gætu ákveðið að breyta um kúrs, selja orkuna frekar til gagnavera, landeldis, til rafeldsneytisvinnslu eða örþörungavinnslu. Það væri gott og gilt en á slíku þyrfti að hafa fyrirvara því skuldbindingar fylgdu því að selja inn á markað fyrir heimili og smærri fyrirtæki.

Þá sagði Tinna að aðskilja þyrfti markað fyrir heimili og smærri fyrirtæki frá markaði fyrir stórnotendur. Orkan þyrfti að rata á rétta staði, en nú væri hætta á leka milli markaða.

Það gæti verið freistandi fyrir stórnotendur að leita á heildsölumarkaðinn, en sá markaður væri ætlaður almenningi. Búa yrði svo um hnútana að heimili kepptu ekki við stórnotendur um örugga orku.