Tilboða nú leitað í heildsölurafmagn

25.01.2022Orka

Fyrirkomulagi á heildsölumarkaði breytt tímabundið

Innrennsli er lítið og vatnsstaða lág í miðlunarlónum Landsvirkjunar, eins og fram hefur komið. Á sama tíma er mikil eftirspurn eftir raforku hjá öllum viðskiptavinum okkar. Sölufyrirtæki sem kaupa rafmagn af Landsvirkjun í heildsölu og selja áfram til endanotenda höfðu í nóvember, áður en ljóst var hversu þröng miðlunarstaðan væri, keypt 10% meiri raforku til afhendingar í febrúar 2022 í samanburði við fyrra ár. Þegar frestur til innsendingar viðbótar beiðna um febrúarsamninga rann út síðastliðinn föstudag varð ljóst að eftirspurnin hafði vaxið enn frekar og var umfram getu Landsvirkjunar til afhendingar.

Þar sem ljóst var að ekki var unnt að verða við öllum beiðnum um frekari kaup hefur Landsvirkjun óskað eftir tilboðum í þá raforku sem hægt er að binda á heildsölumarkaði, alls 23 MW í afli (11,5 GWst í orku) til endursölu. Með þessu móti vill fyrirtækið stuðla að því að sölufyrirtæki hafi jöfn tækifæri til þess að tryggja sér fasta raforkusamninga, en magnið sem nú er leitað tilboða í svarar til rúmlega 5% af sölu Landsvirkjunar til sölufyrirtækja í mánuðinum.

Niðurstöður tilboðsleitarinnar munu liggja fyrir föstudaginn 28. janúar. Aðgangur sölufyrirtækja að skammtímamarkaði, þar sem hægt er að kaupa raforku eftir þörfum með skömmum fyrirvara, verður óbreyttur.

Sölufyrirtækin (sjá lista yfir sölufyrirtækin á https://aurbjorg.is/rafmagn) kaupa mörg orku með löngum fyrirvara og hafa þegar tryggt sér yfir 75% af magni ársins 2022. Landsvirkjun gerir ráð fyrir að salan í febrúar 2022 til sölufyrirtækja geti orðið allt að 20% meiri en í sama mánuði undanfarin tvö ár.