Tryggjum súrefni samfélagsins

29.04.2024Orka

Grein eftir Gunnar Guðna Tómasson, framkvæmdastjóra Vatnsafls, og Einar Mathiesen, framkvæmdastjóra Vinds og jarðvarma.

Gunnar Guðni Tómasson og Einar Mathiesen
Gunnar Guðni Tómasson og Einar Mathiesen

Tryggjum súrefni samfélagsins

Íslenskt samfélag og atvinnulíf vex hratt og um leið er það að umbreytast með grænum lausnum. Við vitum að orka er undirstaða bæði vaxtarins og framtíðarlausna í loftslagsmálum. Án nýs framboðs raforku getum við ekki haldið áfram með orkuskipti bæði á landi og hafi og síðar lofti. Það er hlutverk okkar hjá Landsvirkjun að mæta þörfum íbúa samfélagsins sem hér hefur verið byggt upp af miklu harðfylgi – þau eru eigendur orkufyrirtækis þjóðarinnar og mega gera ríkar kröfur til þess. Við hyggjumst leggja okkar af mörkum til að standa undir þeim kröfum en þá verðum við líka að geta treyst á stuðning stjórnvalda. Raforkan er súrefni samfélagsins og það súrefni verður að tryggja, öllum til heilla.

Stóraukin eftirspurn

Í Covid-19 faraldrinum sem hófst 2020 gerbreyttist viðskiptaumhverfi heimsins. Eftirspurn eftir vörum og þjónustu snarminnkaði. Þetta gilti líka um raforku á Íslandi. Stórnotendur fullnýttu ekki samninga sína vegna erfiðra markaðsaðstæðna og umsvif drógust saman. Landsvirkjun hafði þá nýlega gangsett þriðju virkjunina á fjórum árum: Búðarhálsstöð var gangsett 2014, Þeistareykjastöð 2017 og Búrfellsstöð II árið 2018, samtals 285 MW af uppsettu afli.

Búrfellsstöð II
Búrfellsstöð II

Eftirspurn og framboð þarf að spila saman. Það getur verið dýrt að hafa ekki orku til reiðu þegar eftirspurn eykst en það er að sama skapi dýrt að eiga mikla umframorku í kerfinu. Í vatnsafli er rekstrarkostnaður talsvert mikið lægri en í jarðvarma en á móti kemur að stofnkostnaður er hærri.

Eftir Covid hefur eftirspurn eftir grænni orku stóraukist. Orkukreppa skall á Evrópu eftir innrás Rússlands í Úkraínu, áherslur í loftslagsmálum krefjast hraðra orkuskipta og við þetta bætist að endurreisn efnahagslífsins eftir faraldurinn gekk mun hraðar og betur en búist hafði verið við. Umframeftirspurn eftir raforku virðist komin til að vera - að minnsta kosti um nokkurt skeið.

30 milljarðar í undirbúning

Hver sem heimsækir aflstöð í eigu Landsvirkjunar sér strax að þar er vel hugsað um mannvirki og búnað. Skiptir þá engu hvar er borið niður, á Þjórsársvæði, í Soginu, í Blöndu, Kröflu, Laxá, á Þeistareykjum eða í Fljótsdalsstöð. Fyrir utan reglubundið viðhald og eftirlit hefur tæpum 25 milljörðum króna verið varið í endurbætur á orkumannvirkjum Landsvirkjunar síðasta áratuginn. Þrátt fyrir misjafnt gengi í rekstrinum höfum við aldrei gefið neinn afslátt af viðhaldi og endurbótum.

Laxá
Laxá

Við höfum líka unnið samfellt að undirbúningi næstu virkjanakosta, bæði í vatnsafli og jarðvarma en einnig í vindi. Undirbúningskostnaðurinn er þegar orðinn rúmir 30 milljarðar króna og löngu tímabært að hrinda einhverjum af þeim verkefnum í framkvæmd. Það er nauðsynlegt til að geta mætt framtíðareftirspurn á raforkumarkaði.

Tilbúin í 12% aukningu

Á næstu árum stefnir Landsvirkjun að mikilli uppbyggingu. Fjögur verkefni eru vonandi við það að komast af stað: fyrsta stóra vindorkuver landsins, Búrfellslundur, Hvammsvirkjun í Þjórsá, stækkun jarðvarmastöðvarinnar að Þeistareykjum og loks stækkun Sigöldu, samtals 335 MW aukning. Þessi verkefni munu skila um 1.750 GWst af nýrri raforku árlega sem er um 12% aukning á raforkuvinnslu Landsvirkjunar. Okkur er ekki kunnugt um að önnur orkuvinnslufyrirtæki hyggist bæta við framboð sitt á næstu fimm árum, fyrir utan 20 MW áætlaða stækkun HS Orku í Svartsengi, sem gerir framgang þessara verkefna enn brýnni.

Landvirkjun vinnur jafnframt að rannsóknum og undirbúningi nýrra virkjana sem munu koma í næsta fasa orkuuppbyggingar þegar framangreindum verkefnum er lokið.

Ramminn og leyfin þung í taumi

En til þess að af þessu geti orðið skiptir miklu að leyfisveitingaferli sé bæði skilvirkt og árangursríkt. Sumum finnst kannski að bera í bakkafullan lækinn að nefna leyfisveitingaferli enn og aftur. Það verður þó ekki fram hjá því horft að þau hafa reynst okkur þung, ekki bara fyrir þá virkjanakosti sem lengst eru komnir og við höfum verið að reyna að koma í framkvæmd heldur einnig varðandi aðra kosti sem setið hafa fastir í Rammaáætlun. Þar má nefna t.d. Holta- og Urriðafossvirkjanir sem verkefnistjórn hefur ítrekað lagt til að fari í nýtingarflokk. Alþingi hefur hins vegar hingað til kosið að setja þá kosti í biðflokk sem þýðir að ekki er hægt að vinna að framgangi þeirra.

Á meðan önnur Evrópulönd vinna að því hörðum höndum að einfalda regluverk til að hraða aukinni raforkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum tekur mörg ár að fara í gegnum ferlið hérlendis. Sömu stofnanir fá til að mynda sömu umsókn til umfjöllunar margoft og lögbundnir tímafrestir eru ekki alltaf virtir. Fullkomin óvissa og skortur á fyrirsjáanleika hefur gert þetta ferli að því sem næst ókleifum múr. Við viljum þó ítreka að krafan um bætt leyfisveitingaferli snýst ekki um að draga úr kröfum eða gefa orkufyrirtækjum afslátt af þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla til að ráðast í virkjunarframkvæmdir. Aukin skilvirkni þýðir ekki minni kröfur.

Sláum ekki slöku við

Í nýtingarflokki rammaáætlunar eru nú sextán virkjanakostir. Af þeim á Landsvirkjun sex, HS Orka fimm, ON þrjá og Sæmörk/Arctic Hydro og Vesturverk/HS Orka einn hvort. Aðeins sjö af þessum kostum eru búnir að fara í gegnum umhverfismat og þar af á Landsvirkjun fimm.

Af ofangreindu má sjá að orkufyrirtæki þjóðarinnar hefur ekki slegið slöku við í undirbúningi, fjárfestingum og framkvæmdum undanfarin ár og má gera ráð fyrir að næstu ár verði eitt mesta framkvæmdatímabil í sögu fyrirtækisins. Landsvirkjun hefur þegar sveigt frá hefðbundnu verklagi og boðið út hluta búnaðar og undirbúningsframkvæmda vegna Búrfellslundar með fyrirvara um leyfismál og mögulega þarf að gera það sama vegna Hvammsvirkjunar. Þannig hefur verið reynt að halda þeim möguleika opnum að Búrfellslundur verði gangsettur árið 2026 og Hvammsvirkjun síðla árs 2028. Enn er þó alls óvíst að það náist því ef virkjunar- og framkvæmdaleyfi verða ekki komin síðsumars frestast upphaf framkvæmda um heilt ár í viðbót. Það myndi auka enn á þann vanda sem blasir við á næstu árum þar sem orkan er uppseld, eftirspurnin vex og raforkuöryggi almennings hefur ekki verið tryggt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. apríl, 2024.